145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[16:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir góða yfirferð yfir málið. Það gætti mikils vilja hjá hv. þingmanni til þess að hægt yrði að halda áfram samstöðunni sem hefur ríkt um það. Hann gat réttilega um þá merkilegu staðreynd að þeir sem gerðu fyrirvara við málið voru Sjálfstæðisflokkurinn. Allir hinir náðu fyrirvaralausri samstöðu og það þótti mér á sínum tíma ákaflega merkilegt. Hv. þingmaður lætur í ljósi þá frómu ósk að áfram takist þessi samstaða og hægt verði að lenda málum með þeim hætti að sameiningin sem við sáum um málið haldi áfram.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Sér hann eitthvað því til fyrirstöðu að VG geti staðið að samþykkt málsins hugsanlega með þekktum fyrirvörum úr utanríkisstefnu þeirra? Með hvaða hætti telur hv. þingmaður að þyrfti að breyta tillögunni til þess að auka sem mest og hámarka líkurnar á því að það sem ég leyfi mér að kalla eðlileg samstaða gæti náðst um málið?