145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[16:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Til að því sé öllu til haga haldið eru í sjálfu sér fyrirvarar líka í bókun fulltrúa Vinstri grænna í nefndinni á sínum tíma varðandi 2. og 3. tölulið og síðan bókun í áliti sjálfstæðismanna sem varðar 9. tölulið. En menn standa að nefndarálitinu og tillögunum saman með þeim fyrirvörum. Ég bind vonir við það, já, að hægt verði að vinna málið svona áfram. Menn eiga aldrei að gefast upp. Ekki á að útiloka að menn nái hreinlega utan um þetta í heild og geti afgreitt þetta einróma, en það væri enginn héraðsbrestur eftir atvikum þó að menn stæðu til dæmis að sameiginlegu nefndaráliti úr utanríkismálanefnd með sambærilegum fyrirvörum og á endanum urðu í nefndarstarfi hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Það gæti síðan leitt til þess að menn mundu eftir atvikum vilja sitja hjá við einn eða tvo töluliði tillögunnar en standa síðan að henni. Ég hef ekki ástæðu til að ætla annað. Nú er ég hvorki formaður Vinstri grænna né fulltrúi flokksins í utanríkismálanefnd, þannig að ég tala hér meira fyrir sjálfan mig. En eitthvað þekki ég innyflin í mínu fólki. (ÖS: Samviska flokksins.) Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að áherslur okkar verði í takti við það sem var í nefndarstarfinu sem við lögðum mikið í. Má ég minna á að þáverandi formaður utanríkismálanefndar, Árni Þór Sigurðsson, fyrrverandi þingmaður, nú ambassador í liði hæstv. utanríkisráðherra, og síðan í upphafi Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og seinna Katrín Jakobsdóttir, núverandi formaður, voru í því starfi og lögðu í það mikla vinnu. Við erum mjög áhugasöm um að fylgja þessu eftir.

Ég segi fyrir mitt leyti að þó að þetta sé ekki 100% eins og ég hefði auðvitað haft það og við, þá er þetta að mínu mati svona 95% eins og ég hefði viljað hafa það. Það eina, fyrir utan þessa tvo töluliði sem við gerum fyrirvara við, þá væri það að einhverju leyti uppröðunin á töluliðunum sem mér fyndist mega vera í betra samræmi við áhættuflokkunina, eins og (Forseti hringir.) hv. þingmaður hefur reyndar komið inn á í allmörgum andsvörum í dag. Ég bíð enn eftir því að hv. þingmaður haldi ræðu, en ég hef ráðið nokkuð í afstöðu hans út frá andsvörum.