145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[16:15]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Líkt og fram kom hjá síðasta ræðumanni var eitt helsta ágreiningsefni í íslenskum stjórnmálum upp úr miðri síðustu öld og fram eftir henni ágreiningur í utanríkismálum og þá sérstaklega um varnar- og öryggismál.

Heimurinn breyttist og fyrir fimm til sex árum, eða upp úr 2010, hafði heimurinn breyst svo mikið að hæstv. utanríkisráðherra, sem þá var Össur Skarphéðinsson, flutti þingsályktunartillögu um að skipuð yrði þingmannanefnd til að undirbúa og móta þjóðaröryggisstefnu, sem kölluð er. Tillagan var samþykkt 16. september 2011 og allir flokkar greiddu henni atkvæði nema sjálfstæðismenn. Þeir sátu ekki hjá, virðulegi forseti, þeir voru á móti. Engu að síður var nefndin sett á laggirnar og vann vel allt til loka kjörtímabilsins. Við höfðum í raun klárað efnislega umræðu í lok kjörtímabilsins en af einhverjum skrýtnum ástæðum, sem ég skildi aldrei — ég var formaður þessarar nefndar — þá tókst okkur ekki að setja punktinn aftan við.

Mér finnst að hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson eigi mikið hrós skilið fyrir að vera tilbúinn til að taka á móti niðurstöðu nefndarinnar í febrúar 2014. Það er alls ekki alltaf þannig að þó að nefndir hafi lokið störfum sé annar ráðherra, sem hefur tekið við, tilbúinn til að taka við einhverju sem forveri hans byrjaði á. Ég tel þetta hæstv. ráðherra til mikils hróss.

Nú lítum við á tillögu til þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og hún byggir á störfum þingmannanefndarinnar. Ég verð hins vegar að segja alveg hreinskilnislega að mér finnst áherslurnar svolítið brynvarðari, ef ég má orða það svo, en starf nefndarinnar gekk út á. Við unnum í og töluðum sérstaklega um þrjú atriði. Við vorum með heildræna sýn á þjóðaröryggisstefnuna. Við sögðum að utanríkisstefnan ætti að byggja á virkri utanríkisstefnu og þar tölum við um fjölþjóðasamvinnu, samvinnu þjóða. Við lögðum þar til dæmis ríka áherslu á þróunarsamvinnu sem tengist friði og mannréttindum órjúfanlegum böndum.

Þannig reyndum við að leggja áherslu á mýkri viðhorf, ekki þessi beinlínis hernaðarlegu viðhorf til öryggisins. Við lögðum áherslu á að Íslendingar ættu að láta sitt af hendi rakna til að styðja efnahagslega og félagslega þróun með þróunarsamvinnu, borgaralegu framlagi til friðargæslu og mannúðar og neyðaraðstoðar. Þetta voru áherslur, svo að ég nefni nokkrar, í hinni virku utanríkisstefnu, sem kölluð var svo. Síðan töluðum við um varnarstefnu. Þar var vissulega byggt á aðildinni að Atlantshafsbandalaginu, varnarsamningnum við Bandaríkin, samvinnunni við Norðurlönd og tvíhliða vinnu, sem er kannski ekki jafn formleg, og samráð og samvinnu við til dæmis Breta og Frakka.

Það eru þessir þættir, varnarstefnan og þessi gamla áhersla á öryggishugtakið — ég verð að segja alveg eins og er að ég get vel skrifað undir þessa þingsályktunartillögu. Ég tek undir með flokksbróður mínum, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, mér finnst þurfa að laga viðhorfin sem koma til dæmis fram í okkar skýrslu til loftslagsbreytinga. Að öðru leyti er ég sammála því að þarna eru stólpar eins og Atlantshafsbandalagið og samningurinn við Bandaríkin. Mér finnst samt svolítið mikil áhersla á þetta í þessari þingsályktunartillögu svo að ég sé alveg heiðarleg með það.

Í þriðja lagi sögðum við að utanríkisstefnan þyrfti að byggja á almannaöryggi og það þarf að efla almannakerfið og netöryggi skiptir gífurlegu máli. Það er sérstaklega tekið fram í þingsályktunartillögunni svo að það þarf svo sem ekkert að kvarta yfir því.

Nú er búið að breyta áhættumatinu og nú eru hryðjuverk komin í þann flokk mála sem þarf að veita sérstaka athygli. Auðvitað er það ljóst, alveg frá því síðstliðinn vetur þegar hörmungar urðu í París og ég tala nú ekki um eftir þær hörmungar sem við litum í síðustu viku í París líka, að við þurfum að horfa til þess. En ég vil taka undir með þeim sem hafa talað hér fyrr í dag út af þeim hræðilegu hryðjuverkaárásum að það er mjög nauðsynlegt að við horfum ekki mjög þröngt á það. Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja að það sé mjög nauðsynlegt að við höldum „kúlinu“, eins og krakkar mundu segja.

Það er annað sem kom skýrt fram í starfi þessarar nefndar, sem ég hafði heiður af að vera formaður fyrir, og það er einmitt það að við verðum að hafa skilning á því að borgaralegar stofnanir okkar þurfa, hvort sem það yrði við björgun sem kæmi til, að hafa samstarf við heri. Það eru oftast herir sem þessar borgaralegu stofnanir þurfa að hafa samband við, eins og lögreglan eða Landhelgisgæslan ef að það er í samband við útlendinga. En það má aldrei gerast að þessar borgaralegu stofnanir okkar fái á sig yfirbragð hers. Það er hlutur sem má ekki gerast.

Við þurfum að passa okkur mjög vel á því. Við þurfum að minnast þess — ekki síst í andrúmslofti eins og nú ríkir í löndunum í kringum okkur og að hluta til hér á landi, vegna þess að öll verðum við óttaslegin þegar svona hörmulegir atburðir verða eins og gerðust í París fyrir helgina — að við eigum ekki að hervæðast. Við eigum að tala fyrir friði og það held ég að sé reynt og það eigum við líka að reyna að gera í okkar þjóðaröryggisstefnu. Við eigum að hafa hana þannig að hún leiði fyrst og fremst til friðar en ekki átaka.