145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[16:26]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þegar sjálfur þingfaðirinn hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kvartar undan því að ég hafi ekki haldið ræðu finnst mér nú sæmst að ég kveðji mér hljóðs til þess að árétta stuttlega nokkur atriði.

Í stuttu máli lýsi ég eindregnum stuðningi við þessa þingsályktunartillögu. Ég var á sínum tíma upphafsmaður að því að nefndin, sem vann grundvöll tillögunnar, var sett á laggir og enn vil ég taka undir orð hæstv. ráðherra um að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, sem var formaður þeirrar nefndar, á hrós skilið fyrir það að hafa tekist að sigla því fleyi nánast heilu til hafnar. Það stappar að minnsta kosti nærri pólitísku kraftaverki að hafa náð svo víðtækri samstöðu um mál sem er í eðli sínu jafn flókið, erfitt, hefur leitt oft og tíðum til dýpstu sundrungar sem við höfum séð í íslenskum stjórnmálum, að hafa tekist að smíða fley sem bar flokkana alla saman innan borðs til lands. Það þykir mér vera ákaflega merkileg niðurstaða.

Ég hika ekki við að segja það sem menn glottu hér örlítið yfir fyrr í dag að ég tel að það muni gera hana að fótnótu að minnsta kosti um langa hríð í öryggissögu Íslands.

Ég hef þegar lýst því yfir að þó að ég styðji þessa tillögu finnst mér vera nokkur munur á innihaldi og eðli sjálfrar tillögugreinarinnar annars vegar og hins vegar greinargerðinni og jafnframt því undirlagi sem segja má að skilagrein nefndar hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur hafi verið.

Eins og við höfum rakið í umræðunni höfum við byggt þá stefnu sem hér birtist í tillöguformi á útvíkkun öryggishugtaksins. Það er ekki lengur hið þrönga forna hugtak um öryggi sem fyrst og fremst varðaði fullveldi þjóðar og hernaðarógnina.

Segja má að þessi vegferð hafi hafist með þeirri ágætu skýrslu sem Valur Ingimundarson prófessor vann fyrir ráðuneytið á sínum tíma og var áhættumatsskýrsla við aðstæður sem eru allt öðru vísi en núna. Sú skýrsla skipti miklu máli. Um það leyti brast á með miklum friði í heimshluta okkar og var ljóst að átakalínur lágu ekki lengur hér í grennd við Ísland. Þær höfðu færst allt annað. Við þær aðstæður skapaðist ráðrúm til þess að huga að öðrum þáttum sem varða þjóðaröryggi.

Til að öllu sé til haga haldið er rétt að rifja það hér upp að sá sem fyrstur útfærði hið nýja öryggishugtak var maður sem síðar varð formaður Framsóknarflokksins. Það var Jón Sigurðsson, sem gaf út alveg sérlega fína skýrslu. Reyndar gaf utanríkisráðuneytið hana út, en Jón Sigurðsson, síðar iðnaðarráðherra, var sá maður sem fyrstur þróaði hið nýja öryggishugtak hér á Íslandi. Það tók ekki bara til hernaðarógnar, sem á þeim tíma lá í láginni, heldur margra annarra þátta eins og netöryggis, sem mörgum fannst skrýtið hugtak á sínum tíma, til sjúkdóma, faraldra, matvælaöryggis, loftslagsvárinnar og að sjálfsögðu ýmiss konar mengunar sem sjórinn sætir. Í því ljósi er það alveg hárrétt ábending hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni í ræðu hans hér áðan að eitt af því sem á vitaskuld að liggja undir hér er súrnun sjávar sem ber í sér miklu meiri vá gagnvart íslensku samfélagi en menn virðast almennt gera sér grein fyrir, þótt hv. þm. Elín Hirst eigi líka hrós skilið fyrir að hafa vakið athygli þingsins á því með rækilegum hætti með sérstakri þingsályktunartillögu sem hún hefur lagt fyrir.

Ég tel að það sé líka sögulegt eftir öll þau átök og þá sundrungu sem varnartengd málefni hafa leitt yfir íslenskt samfélag að fyrrverandi formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins komi hér í ræðustól og lýsi því yfir að hann telji enga annmarka á því að flokkur hans geti samþykkt þessa tillögu með eðlilegum fyrirvörum sem helgast af þeirri sérstöku stefnu sem sá flokkur hefur í utanríkismálum. En hann bætti því við að hann væri 95% sammála þessu. Það er mjög merkilegt.

Ég held að aldrei fyrr í sögu Alþingis, ekki á lýðveldistímanum að minnsta kosti, hafi skapast sú samstaða sem hér virðist vera í uppsiglingu. Auðvitað er það þannig að menn hafa mismunandi skoðanir á því með hvaða hætti við eigum að verja fullveldi Íslands. Mér er mætavel kunnugt um að það eru margir, eða a.m.k. nokkrir í þessum þingsölum sem telja að við eigum ekkert erindi til þess að vera áfram innan Atlantshafsbandalagsins. Ég vil segja það hins vegar alveg skýrt að sá flokkur sem ég er hluti af, Samfylkingin, hefur mótaða stefnu þar um. Við teljum að öryggi Íslands sé best borgið fyrir atbeina Atlantshafsbandalagsins, er þar fyrst og fremst vísað til 5. gr. og jafnframt á grundvelli þess tvíhliða varnarsamnings sem við höfum við Bandaríkin.

Það er auðvitað viðurhlutamikið fyrir hvert stjórnvald að verja sitt land og það er snar partur af fullveldinu að standa fyrir slíkum vörnum. Við höfum kosið, Íslendingar, með þessum hætti að framselja það vald í reynd. Við höfum gert samninga sem skipta miklu máli. Margir hafa á síðustu 15 árum verið þeirrar skoðunar að líkast til hafi það verið úrelt þing. Sá mikli friður sem ríkti í grennd við Ísland leiddi til þess að menn töldu að viðsjár sem verið höfðu uppi á tímum kalds stríðs, sem þó var miklu heitara en margur fann, væru horfnar. En veröldin er eins og hún er og við höfum séð það í átökunum í Úkraínu þar sem Rússar hafa farið fram af mikilli vél og beitt nýjum aðferðum, að stjórnvald, líka í landi eins og Íslandi, verður að gera það sem það telur þarft til þess að geta tryggt öryggi borgaranna. Þess vegna segi ég það sem mína skoðun, og ég óska ekki endilega eftir því að aðrir deili henni, að ég tel að það sé ill nauðsyn að Íslendingar haldi áfram virkri þátttöku í Atlantshafsbandalaginu. Ég tel að það sé ákaflega mikilvægt.

Að öðru leyti hafa þær umræður sem hér hafa farið fram heldur sýnt fram á það að það eru líkur á mikilli samstöðu um þetta mál hér. Það er eitt tiltekið atriði sem ég vil ræða sérstaklega. Það fór dálítið öfugt ofan í Sjálfstæðisflokkinn á sínum tíma þegar menn voru að reyna að ná sátt um það að Ísland væri kjarnorkuvopnalaust land í reynd með þeim fyrirvörum sem eru í tillögunni. Það er ekkert nýtt. Sú hefur verið stefnan um langan aldur. Hér á Íslandi er það þannig að 74 sveitarfélög hafa lýst því yfir að þau vilji ekki kjarnorkuvopn innan sinna vébanda. Vitaskuld veit ég að slíkar samþykktir hafa engar efnislegar afleiðingar vegna þess að það er utanríkisráðherra sem fer með vald til þess að skipa fyrir í þeim efnum. En það lýsir vilja þeirra sem þar ráða og það vill svo til að 94% þjóðarinnar búa innan vébanda þessara sveitarfélaga.

Það er líka rétt í lok þessarar ræðu að rifja það upp að allar götur frá árinu 1985 hefur það verið algjörlega skýr stefna íslensku ríkisstjórnarinnar að kjarnorkuvopn séu ekki geymd hér á landi og það tekur líka til herskipa í íslenskri lögsögu. Það var afstaða sem ekki var mótuð af neinni vinstri stjórn. Þeir tveir stjórnmálaforingjar sem mótuðu þá stefnu voru engir aðrir en Steingrímur Hermannsson, einn af glæsilegustu foringjum Framsóknarflokksins, og Geir Hallgrímsson. Þeir voru algjörlega klárir á því. Og 16. apríl 1985 gaf Geir Hallgrímsson, sem þá var utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins, út skýra yfirlýsingu um það. Sú yfirlýsing hefur aldrei verið útfærð neitt nánar og aðrir utanríkisráðherrar sem siglt hafa í kjölfarið hafa ekki þörf á því, og ég held ekki að það sé nein sérstök þörf á því.

En það liggur samt sem áður fyrir og það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að þrátt fyrir allt hefur sögulega séð verið breið samstaða um þann þátt í utanríkisstefnunni. Það var af þeim ástæðum sem ég beindi spurningu í andsvari áðan til hæstv. utanríkisráðherra um það af hverju Ísland hefði greitt atkvæði gegn banni við kjarnorkuvopnum. Og bara til þess að það liggi ljóst fyrir af minni hálfu tek ég skýringar hæstv. ráðherra algjörlega gildar og legg þannig út af þeim að það sé ljóst að núverandi ríkisstjórn hefur í engu breytt um afstöðu til kjarnorkuvopna frá því sem áður var.