145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[16:43]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Það er löngu tímabært að marka slíka stefnu sem tryggir sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins, eins og það er orðað.

Verkefnið er vissulega stórt en alls ekki óyfirstíganlegt. Í breyttum heimi verðum við að sinna öryggismálum betur en við höfum gert. Við erum að vakna upp við breyttan heim og nýjar og auknar kröfur vegna þeirra ógna sem beinast að okkur og öðrum ríkjum.

Þingmannanefnd um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, sem sett var á laggirnar í kjölfar þingsályktunar sem samþykkt var í september 2011, kemur víða við í skýrslu sinni. Þar er fjallað um utanríkisstefnu, varnarstefnu og almannaöryggi. Efnið er raunar svo víðfeðmt að erfitt er að gera því skil í stuttri ræðu. Ég ætla aðeins að drepa á nokkrum punktum.

Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að ef þjóðaröryggi væri skilgreint vítt þá væri ástæða til að skoða stofnun sérstaks þjóðaröryggisráðs sem horfði til allra þessara þátta. Þetta er álit sem þyrfti að skoða. Verkefnið er stórt og ljóst að samræma þyrfti hina ýmsu þætti. Þjóðaröryggisráð eða annar aðili sem gegndi svipuðu hlutverki gæti þar gegnt lykilhlutverki en jafnframt yrði að skilgreina samskiptaleiðir ráðsins við ráðuneyti, utanríkismálanefnd þingsins, aðrar nefndir og þingið í heild sinni.

Þingmannanefndin um þjóðaröryggi skilgreindi ekki sérstaklega forgangsröðun þegar kom að ógnunum og hættum sem steðja að okkur en skilgreindi þó þrjá flokka sem nú hafa verið endurskoðaðir. Þá gaf embætti ríkislögreglustjóra út uppfært mat á hættu af völdum hryðjuverka og öðrum stórfelldum árásum í febrúar á þessu ári. Þar var hættumatinu skipt í fjóra flokka og var gerð tímabær og góð breyting á upphaflegum hugmyndum nefndarinnar í kjölfarið.

Í fyrsta flokk eru settar hættur sem taka mið af viðbúnaði og fjármunum, umhverfisvá eða slys vegna aukinna umsvifa á norðurslóðum, netógnanir og skemmdarverk á innviðum þjóðfélagsins og náttúruhamfarir. Hér er vel valið. Hér eru á ferðinni hættur sem geta valdið miklum skaða á þjóðfélag okkar og geta verið víðtækar og kostnaðarsamar.

Í annan flokk fer skipulögð glæpastarfsemi, fjármála- og efnahagsöryggi, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðismál og hryðjuverk, sem hér hafa verið uppfærð í annan flokk og er það vel í ljósi nýjustu atburða í París og þess sem áður hefur gerst í okkar heimshluta.

Í þriðja flokk fer síðan hernaðarógn en þar er um að ræða hættu sem þessa stundina er talin ólíkleg að steðji að Íslandi en mundi vega að fullveldi og sjálfstæði landsins.

Mikilvægt er að þjóðaröryggisstefnan sæti sífelldri endurskoðun, gagnrýni og að umræða um hana sé opin og gagnrýnin. Við þurfum líka að vega og meta hið viðkvæma jafnvægi milli persónuverndar og rannsóknarhagsmuna. Við þurfum að spyrja ágengra spurninga um hversu langt við eigum að ganga þegar kemur að persónunjósnum, friðhelgi einkalífsins o.s.frv.

Ég bendi á að bresk stjórnvöld hafa nýverið lagt fram frumvarp sem kveður á um heimild til að skoða allar þær netsíður sem einstaklingar heimsækja og verða netaðilar eða þjónustuaðilar að vista slíkar upplýsingar í eitt ár. Hér er gengið afar langt í persónunjósnum. Rökin á bak við þá tillögu eru þau að koma verði í veg fyrir hryðjuverk í landinu. Að sama skapi verða að vera fyrir hendi heimildir fyrir löggæsluaðila og aðra slíka til að sinna störfum sínum.

Við verðum að sjá til þess að löggæsluaðilar hafi nægilegt fjármagn, tæki og tól til að sinna slíkum störfum. Þar vantar mikið upp á að nægilega vel sé gert. Við verðum að styrkja eftirlit og varnir. Við verðum líka að sjá til þess að forvirkar rannsóknarheimildir séu fyrir hendi. Við getum ekki lokað augunum lengur fyrir nýju og breyttu landslagi í kringum okkur.

Öryggi borgaranna er lykilatriði. Við verðum að skerpa á almannavarnakerfinu, viðbragðsáætlunum og því að koma upplýsingum til almennings ef við stöndum frammi fyrir náttúruhamförum eða öðru slíku. Skerpa þarf á ábyrgð fjölmiðla þegar kemur að því að miðla upplýsingum til almennings. Hér hefur pottur verið brotinn. Við sjáum til dæmis að einkaaðilar hafa oft staðið sig betur en sjálft Ríkisútvarpið þegar kemur að miðlun upplýsinga um vá sem er fyrir hendi.

Þegar kemur að varnarstefnu Íslands er áréttað að meginstoðir varna okkar verði áfram varnarsamningurinn við Bandaríkin og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Jafnframt að Ísland taki áfram virkan þátt í störfum NATO og leggi áfram til sameiginlegra varna þess. Þetta er fagnaðarefni. Við getum ekki staðið hjá í krafti ímyndaðs hlutleysis í öllum málum. Við verðum að taka afstöðu, verðum að láta rödd okkar heyrast og vera þátttakendur.

Varnarsamstarfið við Bandaríkin hefur breyst mikið eftir brottför varnarliðsins frá Miðnesheiði og núna nær samstarfið líka til þátta eins og leitar og björgunar meðal annars á grundvelli samkomulags sem gert var við Bandaríkin árið 2006.

Atlantshafsbandalagið hefur líka breyst. Aðildarríkin eru núna 28 en voru 16 undir lok kalda stríðsins og tugir ríkja hafa gert samstarfssamning við bandalagið. Rússland er núna virkt samstarfsríki en var áður skilgreint sem óvinur þó að staðan í Úkraínu hafi óneitanlega haft áhrif á síðustu tveimur árum til hins verra. Atlantshafsbandalagið horfir í auknum mæli til ógna og áhættuþátta líkt og netógnana, umhverfisvár, hryðjuverka, orkuöryggis og útbreiðslu gereyðingarvopna, eins og fram kemur í fylgiskjali með þessari þingsályktunartillögu.

Við verðum líka að skoða virka samvinnu við ríki eins og Rússland og Bandaríkin og önnur norðurskautsríki þegar kemur að málefnum norðurslóða eins og nefndin bendir réttilega á. Slíkt samstarf hefur aldrei verið mikilvægara en nú. Það snýr bæði að réttindamálum og eins umhverfisverndarmálum. Hér skiptir lega landsins miklu máli, jafnt hér og í varnarmálum.

Schengen-samstarfið tengist öryggismálum náið og í ræðu fyrr í dag gagnrýndi ég stöðu þess samstarfs og skort á umræðu um framtíð Schengen. Það samstarf tryggir okkur aðgang að gagnabönkum um einstaklinga sem hafa brotið lög í öðrum löndum, upplýsingar sem eru okkur mikilvægar þegar kemur að baráttunni gegn lögbrotum hverju nafni sem þau nefnast. Schengen-samstarfið hefur hins vegar ekki gengið áfallalaust og nauðsynlegt að taka mikla umræðu um kosti þess og galla. Sú umræða verður að vera öfgalaus og opin.

Á heildina litið finnst mér þetta góð þingsályktunartillaga. Ég held að markmið hennar séu góð og nálgunin sé vönduð. Það má deila um vægi einstakra liða í tillögu nefndarinnar eða skipan þátta í áhættuflokka. Eðlilegt er að þeir þættir séu teknir fyrir í umfjöllun þingsins á næstunni.

Órói í alþjóðamálum hefur aukist eins og fram kom í máli hv. þm. Birgis Ármannssonar áðan. Öryggismál eru í sviðsljósinu, skipan alþjóðamála hefur breyst og nægir þar að benda á stöðuna í Úkraínu þar sem fullveldi þess lands var gróflega virt að vettugi og er þó um Evrópuþjóð að ræða. Það sem hefur gerst í Sýrlandi og Írak hefur haft bein áhrif á Vesturlönd og við getum ekki staðið aðgerðalaus hjá og látið sem okkur komi þetta ekki við. Það er því algerlega nauðsynlegt að sinna þessum málaflokki vel. Þjóðaröryggismál snerta marga og ólíka þætti og við höfum þar mikið verk að vinna.