145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[16:51]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef fylgst nokkuð með þessari umræðu í dag úr fjarlægð en hún hefur verið um margt athyglisverð eins og þessi tillaga til þingsályktunar, en þar er að finna ýmsa ágæta þætti, þá ekki síst fyrsta atriðið sem nefnt er sem áhersluatriði í nýrri þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland að horft verði sérstaklega til umhverfis- og öryggishagsmuna Íslands á norðurslóðum í alþjóðasamvinnu og innlendum viðbúnaði, umhverfis- og öryggishagsmunir þarna samtvinnaðir.

Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að að sumu leyti finnst mér þetta plagg og umræðan um það ekki endurspegla þann heim sem er að verða til fyrir sjónum okkar núna síðustu missirin og við erum mjög eindregið að fá staðfestingar á núna síðustu daga á hörmulegan hátt. Þar er ég að vísa til hryðjuverkanna í París sem voru villimannsleg og ekki til annars en að fordæma hörðum orðum.

Að sama skapi hefur mér óneitanlega brugðið í brún við að heyra viðbrögð forsvarsmanna ýmissa ríkja sem eru í bandalagi með okkur, þar horfi ég til Frakka, ég horfi til Bandaríkjamanna, ég horfi til ummæla Obamas Bandaríkjaforseta sem sagði að nú riði á að niðurlægja óvininn, „degrade him“, og útrýma honum. Hollande Frakklandsforseti hefur talað á svipaðan hátt um að uppræta villimannslega hugmyndafræði og ganga milli bols og höfuðs á andstæðingnum. Við höfum heyrt þetta allt saman áður. Við heyrðum svipuð ummæli á sínum tíma úr munni George Bush Bandaríkjaforseta yngri þegar hann talaði einhverju sinni um mikilvægi þess að Vesturlönd undir forustu Bandaríkjanna hæfu krossferð, það voru hans orð, gegn — hann talaði nú ekki um trúvillinga, en gegn andstæðingum Bandaríkjanna. Mér er sagt að í þeirri viku sem hann lét þessi ummæli falla hafi safnast fleiri nýliðar í raðir al-Qaeda en nokkru sinni, hvorki fyrr né síðar. Þetta er samhengi hlutanna.

Þá gerist það að við erum að ræða hér plagg og tillögu frá ríkisstjórninni sem er byggð á þverpólitísku samkomulagi. Þar vísa ég í þann þátt sem ég nefndi hér fyrstan um öryggismálin almennt þar sem lagt er til að við hjúfrum okkur fastar inn í faðm þessara aðila, inn í NATO-faðminn með Bandaríkjamönnum, með Frökkum sem svöruðu ódæðinu samstundis með hertum loftárásum í Sýrlandi og hvergi dró úr ódæðisverkum Bandaríkjamanna í Jemen sem hefur legið undir árásum þeirra frá Sádi-Arabíu núna um nokkurra missira skeið, svokölluðum drónaárásum sem hafa drepið margfalt fleira fólk, saklausa borgara, börn og saklaust fólk á undan förnum árum en féllu fyrir morðingjahendi í París. Þetta er samhengi sem við verðum að horfa til. Hvar ætlum við að staðsetja okkur í þessum heimi?

Hér segir í öðrum áherslulið þessarar tillögu að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands. Í fyrsta lagi þá mótmæli ég því að þetta verði gert og vísa til þingsályktunartillögu sem liggur fyrir og hefur legið fyrir þar sem ég er fyrsti flutningsmaður um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um veru okkar í NATO. Ég er andvígur því að við föllumst á þetta.

Í annan stað þá efast ég mjög um þessi hyggindi og hve satt og rétt er hér sagt frá að það verði áframhaldandi stoð, verði áfram stoð í vörnum Íslands. Er í þessu fólgin vörn? Í hverju liggur sú vörn?

Ég hef margoft talað fyrir því að við endurskoðum afstöðu okkar til NATO í ljósi þeirra breytinga sem átt hafa sér stað innan þess bandalags og gerðust á 10. áratugnum, voru staðfestar á afmælishátíðarfundinum í Washington 1999 og síðan aftur í Prag nokkru síðar þar sem áherslunum var breytt á þann veg hjá NATO að í stað þess að líta svo á að árás á eitt ríki væri árás á öll eins og stendur í grunnsáttmálanum þá skyldu menn horfa til þess að ógn við eitt ríki væri ógn við öll. Þá spyr ég: Hverjum er líklegast til að verða ógnað í grimmum hagsmunaheimi? Er það ekki þeim ríkjum sem eru ásælnust í garð auðlindanna og sýna mestan yfirgang? Ég hef látið það fylgja með að af þeim sökum þá skipti okkur meira máli en nokkru sinni hverjir eru ráðandi og hvaða öfl eru ráðandi í sterkustu hernaðarveldunum innan NATO. Hver er Bandaríkjaforseti? Hversu árásargjarn er hann? Hversu ásælinn er hann í auðlindir annarra?

Því miður hefur Obama ekki reynst hótinu betri en George Bush Bandaríkjaforseti að ýmsu leyti. Vopnasala til Sádi-Arabíu eða þess hluta heimsins er meiri á undanförnum fjórum árum en á nokkrum fjórum árum frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þetta er bara veruleikinn. Þetta er veruleikinn.

Síðan er það hitt að menn geta spurt hvort stríðsátök færist nær okkur. Það er líka hægt að snúa spurningunni við og spyrja: Erum við með gjörðum okkar að færa okkur nær stríðsátökum? Það gerum við með því að vera í slagtogi við þessar þjóðir sem eru fyrst og fremst að verja hernaðarhagsmuni sína og hagsmuni auðvaldsins. Hagsmuni auðsins. Þeim er nákvæmlega sama um allt sem heitir mannréttindi. Eða vita menn ekki að í Sádi-Arabíu, sennilega á eftir Kína, eru fleiri drepnir með villimannslegum hætti en nokkurs staðar annars staðar? En menn einblína á ISIS-villimennina sem réttilega eru nefndir svo. En þetta eru bara vinirnir. Þá segja menn eins og oft var sagt á Íslandi: Segðu mér hverja þú umgengst og ég skal segja þér hver þú ert. Við erum að samsama okkur með þessum ríkjum og með þessum öflum.

Síðan er þetta ömurlega tal um hið herlausa Ísland í borgaralegu samstarfi innan NATO. Við erum tilbúin að vera í hernaðarbandalagi og taka þátt í því að senda ungviði annarra þjóða út á vígvöllinn, en við komum náttúrlega þar hvergi nærri. Annaðhvort eiga Íslendingar að koma sér upp her og halda sig innan vébanda þessa bandalags eða segja sig þaðan út. Það er það sem við eigum að gera. Að sjálfsögðu eigum við að fara þaðan út. Þar með er öryggi okkar betur tryggt. En vanahugsunin er sterk. Hún er óskaplega sterk jafnvel eftir að Bandaríkjamenn urðu uppvísir að hryllilegum pyndingum í Abu Ghraib fangelsinu og jafnvel eftir að heimurinn horfði á þá starfrækja ólöglegar pyndingabúðir í Guantanamo, jafnvel eftir það þá hreyfir það ekki við mönnum hér. Hreyfir ekki við nokkrum manni.

Þess vegna segi ég: Þessi annar liður og reyndar þriðji liðurinn um varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna er nokkuð sem ég mun aldrei samþykkja. Og lágmarkskrafan er sú að við skjótum því til þjóðarinnar að ákveða hvort við ætlum að halda okkur áfram innan veggja hernaðarbandalagsins NATO. Það er lágmarkskrafa.