145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[17:03]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst ein söguleg leiðrétting. Ég sat ekki þegjandi undir árásunum á Líbíu. Ég andmælti þeim og gerði grein fyrir því í ríkisstjórn. Hins vegar er það mikill barnaskapur að ímynda sér að þótt að forminu til hefðu Íslendingar getað stöðvað árásirnar á Líbíu hefði það verið svo í raun. Að sjálfsögðu erum við áhrifalaus þar innan dyra. Eða hvað sagði hæstv. utanríkisráðherra um ákvörðunina í lok júlí sem tekin var á vettvangi NATO, að gefa grænt ljós á loftárásir á Kúrda? Það var gert á fundi NATO. Við vorum þar. Við gagnrýndum þá mörg ríkisstjórnina, ég gerði það og við gerðum það mörg úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að þetta hefði verið slæmt. En auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að meðan við, herlaus örþjóð innan veggja NATO, erum þar þá ráðum við engu í raun. Við gerum það ekki. Við höfum vissulega komist í slíka aðstöðu í tímans rás að við skiptum máli, eins og í landhelgisstríðunum, það er rétt. En í þessum stóra gangi er hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson, með fullri virðingu fyrir honum, áhrifalaus. Hann er það að öðru leyti en því að hann getur haft uppi málflutning um ýmis efni. Og ég hef reyndar gagnrýnt þegar kemur að Úkraínu hve hart hann hefur gengið fram þar og á hátt sem ég hef ekki talið vera yfirvegaðan. Það er rétt, það getur skipt máli, en í stóru gangverki þessarar hernaðarmaskínu eru Íslendingar ekki áhrifamiklir. Það eru þeir ekki. Ef þingmaðurinn ímyndar sér að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefði getað stöðvað loftárásirnar á Líbíu á sínum tíma held ég að það sé misskilningur.