145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[17:08]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér vefst eiginlega tunga um tönn. (Gripið fram í: Það er ekki oft.) Að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, sem um langan tíma höfum haft meira en efasemdir um veru Íslands í NATO og teljum hana vera til ills og höfum margoft talað á þann veg í þinginu og utan þingsins og sett fram fjölmörg þingmál þar að lútandi og nú síðast um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um veru okkar í NATO, að þetta sé allt til komið vegna þess að við stöðvuðum ekki loftárásir NATO á Líbíu á sínum tíma. Trúir þessu einhver maður? (Gripið fram í.) Það er sem sagt þannig að Vinstri græn á Íslandi stoppuðu ekki Bandaríkin og Breta og Frakka og öll þau herveldi á vettvangi NATO, innan NATO, í að herja á Líbíu, að við séum svo óskaplega sakbitin yfir því að hafa ekki komið í veg fyrir þetta, sem við hefðum náttúrlega getað gert, að þess vegna séum við að snúast gegn NATO? Ég ætla bara að skilja þessa spurningu eftir í loftinu fyrir áhorfendur og fyrir þá sem kunna að lesa þingtíðindin. (Gripið fram í: Þú ert að snúa út úr.) Ég er ekki að snúa út úr einu eða neinu. Við erum að tala af fullum heilindum um efasemdir okkar, og meira en efasemdir, andstöðu okkar við veru í Atlantshafsbandalaginu, NATO. Ég hef margoft fært rök fyrir því að ég tel ekki síst í breyttum heimi með breyttum áherslum innan NATO og í breyttri heimsmynd að öryggi okkar sé ógnað með veru okkar í Atlantshafsbandalaginu, NATO.