145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[17:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu sem hefur að mestu leyti hefur snúist um þjóðaröryggisstefnu, og áhugaverð umræðan hér síðustu mínúturnar og hefði verið tiltölulega freistandi að blanda sér í þær en í ljósi þess góða anda sem hér hefur ríkt meginhluta umræðunnar kaus ég að gera það ekki.

Nú fer tillagan til utanríkismálanefndar til umfjöllunar og þar munum við eflaust ræða málið áfram. Það fékk ágæta umfjöllun á síðasta þingi en ekki náðist að klára það eins og komið hefur fram. Það hefur í rauninni ýmislegt gerst síðan að sú umræða fór fram og þetta mál var síðast rætt og því miður hefur það allt verið á verri veg í heimsmálunum.

Það er svolítið merkilegt sem gerðist í morgun sem lýsir kannski því hvernig heimurinn hefur þróast og hvaða ástand er komið því að í fyrsta sinn í sögunni virkjar ein Evrópusambandsþjóð ákvæði í sáttmála Evrópusambandsins um að öðrum aðildarríkjum sé skylt að bjóða fram aðstoð sína þar sem sú þjóð, Frakkar í þessu tilviki, telja að á sig hafi verið ráðist og að þeir séu komnir í stríð. Ég tel það ástand í raun og veru lýsa þeirri stöðu sem uppi er í Evrópu og heimsmálunum, öryggi heimsins.

Ég tel samt að það sé mikilvægt, þó svo að nú séu öll ríki Evrópusambandsins orðin aðilar að stríðinu gegn ISIS, að við séum raunsæ gagnvart þeim ógnum og hættum sem steðja að okkur um leið og við verðum að vera tilbúin að verja frelsi og friðhelgi fólks á sama tíma. Við verðum að finna jafnvægið þarna á milli, hvernig við getum tryggt öryggi þegna þessa lands sem okkur ber að gæta og um leið hvernig við getum tryggt frelsi þeirra og friðhelgi til að lifa sínu lífi.

Það er gott að finna þá samstöðu sem hefur verið að meginefni til um tillöguna þótt auðvitað séu skiptar skoðanir um einstaka þætti. Vonandi náum við eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og núverandi forseti sagði svo ágætlega í sinni ræðu að við náum saman um hryggjarstykkið í þessum tillögum þó svo að eitthvað standi út af sem við viljum greina sérstaklega frá.

Að lokum þakka ég fyrir umræðuna og enn aftur þakka ég hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir að leiða þá vinnu sem lagði í raun grunninn að þeirri tillögu sem hér er komin.