145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

höfundalög.

333. mál
[17:34]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir gott svar. Hins vegar set ég spurningarmerki við það hversu mikil bein þýðing er í núverandi frumvarpi til laga um höfundarétt úr sænskri löggjöf. Mér finnst það einkennilegt að ráðuneytið geti ekki búið til og staðfært þann lagatexta til að rúmast í íslenskum lagatexta. Af hverju þýðum við ekki öll sænsku lögin? Það mundi spara þinginu mjög mikinn tíma ef við gætum bara gert það.

Í öðru lagi er það ekki þannig að endalaust sé verið að skoða höfundalög. Það gerist einu sinni á 20 ára fresti. Það er akkúrat að gerast núna innan Evrópusambandsins. Mér finnst mjög mikilvægt að við höldum okkur í takt við það þar sem við erum bara lítil eyja norður í Atlantshafi. Við erum hluti af miklu stærra samhengi.

Ég geri athugasemd við það sem mig minnir að sé í 25. gr. varðandi flýtimeðferð í lögbannsmálum. Mig langar að vita hvort hæstv. ráðherra telji það samræmast stjórnarskrá. Þarna er um að ræða ritskoðun. Mér finnst mjög alvarlegt að leiða það í lög. Mig langar að vita hver afstaða ráðherra er varðandi það, sér í lagi hvort þetta samræmist stjórnarskrá og hvort ekki sé gengið svolítið langt á rétt tjáningarfrelsisins og hvort þetta sé raunhæf lausn á þeim vanda sem að höfundum steðjar þegar kemur að því að fá borgað fyrir verk sín og vera kenndir við verk sín og fá að halda þeim réttindum sem höfundar eiga.