145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

höfundalög.

333. mál
[17:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst hvað varðar þýðingar eða tilvísanir í norrænan rétt. Það er enn og aftur hárrétt hjá hv. þingmanni að við erum hluti af stærra samhengi og verið er að tryggja að íslenskur réttur kallist á við norrænan höfundarétt. Þess vegna er hægt að finna staði í þessari löggjöf þar sem stuðst er við norræna löggjöf.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um 25. gr. frumvarpsins held ég að hér gæti nokkurs misskilnings. Það er ekki verið að gera þær breytingar frá þeim lögum sem eru nú þegar í gildi, sem snúa að því að sýslumenn geti beitt þeim ákvæðum eða úrræðum sem nú þegar er kveðið á um. Breytingin sem hér er verið að ræða um er að þjónustuþegi, sá sem dreifir efninu, sé látinn vita ef á að beita slíkri lokun til að tryggja réttaröryggi viðkomandi aðila. Það er verið að ganga lengra í þá átt sem hv. þingmaður talar um, þ.e. tryggja það að þeir sem verða fyrir lokun að búið sé að ganga úr skugga um að hægt sé að hafa samband við viðkomandi svo hann geti komið við vörnum.

Aftur á móti sagði ég í minni ræðu að ég teldi rétt að nefndin skoðaði í umfjöllun sinni hvort gera ætti breytingar frá því að þetta vald sé hjá sýslumanni og fari þá beint til dómstólanna, m.a. út af þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður ræddi. Ég held að gætt hafi nokkurs misskilnings hvað þetta varðar. Það er ekki verið að gera þessar breytingar, en ég er að leggja til að menn skoði það að þegar slíku valdi er beitt sé búið að fara með það til dómstóla, það sé ekki framkvæmdarvaldið sem geri það. Aftur á móti þarf að tryggja að hægt sé að gera þetta hratt, fá niðurstöðu dómstólsins hratt og ekki bíða hans lengi því að þá er skaðinn skeður ef um er að ræða ólöglega dreifingu á efni sem er höfundaréttarvarið.