145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

höfundalög.

333. mál
[17:40]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég treysti mér ekki alveg í nákvæma útlistun á því sem hv. þingmaður var að spyrja um. Þetta er bara eitt af þeim málum sem þarf að ræða í nefndinni og kalla eftir djúpri umræðu um.

Megintilgangurinn er að tryggt sé að réttindi þeirra sem hafa skapað hugverk og eiga þau séu varin. Fyrir því eru veigamikil rök, bæði þegar kemur að því að menn hafi hvata til að skapa þau og líka þau rök að um höfundarverk gilda nákvæmlega sömu reglur, hugsun og nálgun og gildir um eignarrétt manna almennt. Það sem ég hefði áhyggjur af, ef við gæfum eftir eða slökuðum á hvað varðar höfundarétt þegar kemur að dreifingu verka á netinu, sem er orðinn yfirgnæfandi miðill, ef slegið væri af eða gefinn afsláttur af höfundarétti manna, þá mundi fljótt fara svo að listamenn sem ættu verk sín og afkomu undir því að geta innheimt af þeim tekjur mundu í vaxandi mæli þurfa að leita á náðir ríkisvaldsins þegar kæmi að afkomu þeirra. Ef grundvöllurinn undir tekjumyndunina hverfur af því að ríkjandi kúltúr er orðinn þannig að menn geti tekið réttindi annarra manna og nýtt sér þá held ég að við þurfum að hafa af því áhyggjur.

Hitt, að hæðast að verkum, gera að þeim grín eða fjalla um þau eða ræða, er bara hluti af hinni opinberu umræðu. Menn verða samt sem áður að lúta þeim reglum sem eru í gildi um höfundaréttinn. Það er ekki hægt að gefa afslátt af eignarréttindum manna hvað þetta varðar.