145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

höfundalög.

333. mál
[17:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Akkúrat það sem hv. þingmaður endaði ræðu sína á, það sem við elskum og viljum miðla með öðrum — við verðum um leið að virða eignarréttindi þeirra sem sköpuðu þá hluti sem við elskum og okkur þykir vænt um. Það þarf að greiða fyrir þá. Ég átta mig á þeim málflutningi sem hv. þingmaður hefur hér uppi, ég skil alveg hvert er verið að fara með þessari umræðu. Það er alveg rétt að það þarf að finna þá línu sem þarf að liggja þarna.

Aðalatriðið er að við séum sammála um að höfundarverk njóti verndar eins og önnur eignarréttindi. Ef við getum verið sammála um það held ég að menn geti síðan unnið sig frá því sjónarmiði og frá þeim útgangspunkti í átt að því að gæta þess að það verði ekki um of þrengt að því að menn geti ekki tjáð sig. Ég held að þetta tvennt eigi alveg að geta farið saman eins og á við um aðra hluti fyrir tilkomu netsins, þ.e. sjónarmiðin um eignarréttinn annars vegar og hins vegar réttindi annarra til að tjá sig um þau réttindi eða lýsa þeim eða hvað það nú er. Ég held að menn eigi alveg að geta fundið þessa línu.

Enn og aftur: Tilgangurinn eða það sem var lagt upp með er að við horfum til þeirra landa sem við miðum okkur við og eigum í miklu samstarfi við varðandi til dæmis útgáfu á listaverkum, útgáfu bóka og tónlistar og annars slíks, og horfum þá til sérstaklega til annarra Norðurlandaþjóða. Ég held að það sé skynsamlegt fyrir okkur að hafa okkar löggjöf í góðum takti við þá löggjöf sem er annars staðar á Norðurlöndum.