145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

höfundalög.

333. mál
[17:58]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta snýst ekki beint um birtingu, þetta snýst um að fá borgað. Ef lög um samningskvaðir fara inn í höfundalög er ekki þar með sagt að við séum endilega að gæta hagsmuna höfunda, því að þarna er í raun og veru samningsatriði. Ef við lítum á samningskvaðir og innheimtusamtök sem eins konar verkalýðsfélög höfunda þá þurfum við að búa til sérstök lög um það. Annað er svo að þótt fólk geti sagt sig úr … (Gripið fram í.) — Hvað segirðu? Já, en það þarf að segja sig sérstaklega úr þeim, þannig virka samningskvaðaleyfi. Þegar búið er að gefa ákveðnum rétthafa eða innheimtusamtökum réttinn til þess að vera með samningskvaðaleyfi þá á það við allar bækur sem eru gefnar út. Til þess að höfundur sé ekki hluti af samtökunum þarf hann að segja sig sérstaklega úr þeim, þannig virka samningskvaðaleyfi. Það gerir það, „extended collective licensing“ virkar þannig og það er vandamálið. Það að einhver annar geti samið fyrir þína hönd og þótt þú getir fengið borgað þá er þetta spurningin um það að menn fara ósjálfrátt inn í ákveðið form, sem er vandamálið. Þetta er bara spurning um það. Jú, frábært, það er hægt að segja sig úr þeim, það er hægt að standa fyrir utan þau, það er hægt að fá greitt einhvern veginn öðruvísi. Hins vegar er með því að gefa samningskvaðaleyfi í raun og veru verið að gefa ákveðnum innheimtusamtökum leyfi til þess að taka pening fyrir annarra manna vinnu og útdeila þeim síðar. Verði það gert vil ég að það verði gert á eins gagnsæjan, öruggan og lýðræðislegan hátt og hægt er með aðkomu höfunda, með aðkomu fólksins sem á að fá greitt. Það þarf að gerast og tryggja það í sérstökum lögum um innheimtusamtök, að mínu mati.