145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

höfundalög.

334. mál
[18:23]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á að fagna því að við séum að lokum að innleiða þessa tilskipun frá Evrópusambandinu, um munaðarlaus verk. Rétt eins og stendur í 1. gr. bætist við 12. gr. núverandi höfundalaga, 12 gr. c, þ.e. að með munaðarlausu verki sé átt við verk í rituðu máli, hljóðrit, myndrit eða kvikmyndaverk þar sem enginn rétthafi hefur verið fundinn þrátt fyrir ítarlega leit. Rétthafi er ekki endilega höfundur verksins. Mér finnst mjög mikilvægt að það komi fram. Samkvæmt samevrópskum skilningi á höfundalögum eða því sem við erum í raun og veru að innleiða getur rétthafi verið einhver annar en höfundurinn. Þó að við vitum hver höfundurinn er þá höfum við ekki endilega réttinn til þess að birta eða dreifa verkinu. Þannig að hér er í raun og veru ekki verið að bæta við réttindi höfunda heldur er verið að bæta við réttindi rétthafa. Það er mjög mikilvægt að það komi fram í umræðunni þar sem þetta kristallast, sú samtvinnun milli efnahagslegra réttinda og siðferðislegra réttinda sem höfundalög eiga að halda utan um.

Það sem mig langar til að segja um þau lög sem hér um ræðir er að þetta er í sjálfu sér ekkert slæmt. Það er fínt að við séum að halda utan um einhverja skrá, en hins vegar er mikilvægt að átta sig á því að samkvæmt lögum og skilningi laganna á því hvað er rétthafi, hann er ekki endilega sá sami og er höfundur. Það er það sem mig langaði til að segja. Annars fagna ég því að við séum loksins að fara að innleiða þessa tilskipun. Það er nú bara það.