145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 122/2015 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

186. mál
[18:29]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 122/2015, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn. Nefndin hefur, eins og kemur ítrekað fram í þessum málum, fjallað um málið og fékk að þessu sinni á sinn fund Bryndísi Kjartansdóttur frá utanríkisráðuneyti og Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Með þessari tillögu er verið að leita eftir að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á viðauka XX, eins áður hefur komið fram. Tilskipunin sem um ræðir gerir ráð fyrir ákveðnum breytingum en mjög takmörkuð áhrif hennar verða hér á landi, ef þá nokkur, og gerðin hefur einungis áhrif á eina eldsneytisstöð á öllu landinu. Innleiðing þessarar tilskipunar eða annarrar tilskipunar nr. 2009/126/EB kallaði á sínum tíma á breytingu á efnalögum þar sem setja þurfti lagastoð fyrir því að skylda rekstraraðila eldsneytisstöðva til að setja upp annars stigs gufugleypibúnað í eldsneytisdælur. Umhverfis- og auðlindaráðherra lagði fram frumvarp til innleiðingar á þeirri tilskipun á 144. löggjafarþingi sem Alþingi samþykkti sem lög nr. 63/2015, um breytingu á efnalögum, sem hafa þannig nú að geyma þá lagastoð sem þarf vegna þessarar innleiðingar á tilskipun 2014/99/ESB.

Að þessu sinni kallar því innleiðingin ekki á lagabreytingar, hún hefur þegar átt sér stað og er ekki talin hafa í för með sér breytingar á stjórnsýslu eða kostnaði umfram þann sem leiðir af fyrrgreindri tilskipun frá árinu 2009. Það var því mat nefndarinnar að leggja til að þessi gerð yrði samþykkt og að tillagan yrði samþykkt óbreytt.

Undir það skrifuðu sú sem hér stendur, Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, og hv. þingmenn Silja Dögg Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason, Karl Garðarsson, Frosti Sigurjónsson og Björn Valur Gíslason.

Aðrir nefndarmenn voru ekki viðstaddir fundinn þegar málið var til afgreiðslu.