145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt til þess að vita að við erum komin á síðari hluta kjörtímabilsins því að ég má bara til með að orða það hér í ræðustól Alþingis: Óskaplega leiðist mér þessi ríkisstjórn.

Af hverju þarf ítrekað að fara fram í einkavæðingarblæti og draumórum Sjálfstæðisflokksins og núna með áformum um stóraukinn einkarekstur, meðal annars í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu? Hvenær var þetta boðið fram í aðdraganda kosninga? Hvar voru kosningaloforð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um að ganga þvert á samfélagssáttmálann um samfélagsrekið heilbrigðiskerfi? Hvar var, á fundinum fína á Laugarvatni, talað um að fara í bakið á þjóðinni, að vega að Íslendingum úr launsátri með einkavæðingaráformum í heilbrigðisþjónustu? Hver lofaði því að búa til kerfi sem mismunar fólki eftir efnahag? Hver lofaði því að búa til kerfi þar sem fólk á að kaupa sig fram fyrir í biðröðum? Hvar var það kosningaloforð að til stæði að þrengja að framhaldsskólunum á Íslandi? Þetta birtist nefnilega aldrei og það er svo að þessi staða á Íslandi er óþolandi.

Það er óþolandi að við þurfum að horfast í augu við það að þessi pólitísku óheilindi, sem ég leyfi mér að kalla svo, að það sé látið viðgangast að ráðherrar fari fram án þess að ræða stórar grundvallarbreytingar á íslensku samfélagi á Alþingi og án þess að nokkur kippi sér upp við það í stjórnarflokkunum Er þetta samkomulag? Er þetta niðurstaða af einhverjum helmingaskiptum, hugmyndafræðilegum helmingaskiptum?

Ég segi, virðulegi forseti: Þetta verður að ræða á Alþingi og út um allt samfélag. Við þetta verður ekki unað.


Efnisorð er vísa í ræðuna