145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Þær eru sláandi tölurnar sem hafa komið fram varðandi fækkun nemenda í framhaldsskólum landsins. Tölurnar vekja hjá manni óhug um það hvert sé verið að stefna með framhaldsmenntun á Íslandi og hvort íslensku ríkisstjórninni sé það metnaðarmál að vera á botni listans, vera ein minnst menntaða þjóð Norðurlanda.

Eitt vekur upp spurningar, ekki bara hjá mér heldur öllum þeim sem búa í sveitarfélögunum sem hafa fámenna framhaldsskóla ef borið er saman við framhaldsskóla höfuðborgarsvæðisins, en það er þessi fáránlega regla um að meina nemendum eldri en 25 ára um pláss í þeim skólum. Það kemur auðvitað fámennu skólunum hvað verst. Er það virkilega stefna ríkisstjórnarinnar að loka þeim skólum eða ætlar hún að breyta regluverki og reiknilíkani fyrir framhaldsskólana? Fyrir þessa skóla skiptir hvert eitt og einasta nemendaígildi gríðarlegu máli þegar kemur að rekstrargrundvelli og að geta veitt nemendum stoðþjónustu. Hvernig á að koma til móts við þessa framhaldsskóla? Hverjar eru mótvægisaðgerðirnar?

Er það kannski bara dulin stefna í hagræðingarskyni að láta þessa skóla fjara út? Gerir ríkisstjórnin sér ekki ljóst að fyrir þessi sveitarfélög eru þetta gríðarlega mikilvægar stofnanir? Þær auka ekki aðeins aðgengi að menntun og hækka menntunarstig heldur líka auka þær einnig almenn lífsgæði íbúa með verkefnum sem snerta samfélagið beint. Hvert er verið að fara með þetta? Er þetta byggðastefna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins á Íslandi? Við þurfum að fá svör og við þurfum að fá svör strax.


Efnisorð er vísa í ræðuna