145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil enn einu sinni gera að umræðuefni, undir liðnum um störf þingsins, það verkefni sem við Íslendingar eigum eftir, þ.e. að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Ég hef ásamt 12 öðrum þingmönnum flutt þingsályktunartillögu um þetta mál. Ég sagði hér einhverju sinni í ræðu að 151 ríki af 193 hefðu samþykkt samninginn. Það er ekki rétt. Þau eru miklu fleiri. Ríkjunum fjölgar mjög og þeim fjölgar hratt sem hafa fullgilt samninginn. Nú er talið að um 160 ríki séu búin að fullgilda samninginn. Ísland er að verða eina ríkið sem á eftir að fullgilda samninginn. Við erum að verða að athlægi erlendis og það er okkur til stórskammar hér á Íslandi að vera ekki búin að fullgilda samninginn.

Eins og ég sagði, ríkjum fjölgar og fjölgar hratt sem gera þetta. Það er heldur ekki rétt, sem ég sagði hér, að í raun og veru hefði hálft skref verið stigið með undirrituninni á sínum tíma. Samningurinn tekur ekki gildi fyrr en við undirritun. Það er það sem ég ætla að gera hér í þessari ræðu minni, virðulegi forseti, ég þarf ekki að telja fram rökin, við erum öll sammála um þau vafalaust, en það sem ég ætla að gera hér í lok ræðu minnar er að tala til framsóknarmanna og sjálfstæðismanna hér á þingi um að þeir fari að beita sér fyrir því í þingflokkum sínum að við tökum þennan samning og fullgildum hann.

Við eigum að setja okkur það markmið að fullgilda hann fyrir áramót. Við eigum ekki að vera síðust. Við eigum að geta horft yfir það hvort þetta skiptist ekki í minni hluta og meiri hluta. Þess vegna biðla ég til framsóknar- og sjálfstæðismanna: Talið fyrir þessu í þingflokkum ykkar, látið hendur standa fram úr ermum og krefjist þess að Alþingi fái að samþykkja að við fullgildum samninginn og ríkisstjórnin einhendi sér í það og markmiðið ætti að vera eigi síðar en um áramót.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna