145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þegar kemur að umræðum um efnahagsmál og hagstjórn þá lít ég ekki svo á að ég sé vinur eða óvinur eins eða neins, hvorki Seðlabanka né ríkisstjórnar. Ég reyni að fjalla með hlutlægum hætti um þau mál. Ég bakka ekki með það að mér finnst það ódýr málflutningur hjá stjórnarliðum að koma hér dag eftir dag og viku eftir viku og úthrópa Seðlabankann og finna stefnu hans allt til foráttu en reyna á sama tíma algerlega að hvítþvo ríkisstjórnina og fría hana allri ábyrgð. Það heitir að sjá flísina í auga bróður síns, því auðvitað er það þannig og það hélt ég að væri óumdeilt í umræðum um efnahagsmál og hagstjórn að þar spila saman annars vegar að sjálfsögðu stýritæki Seðlabankans, ákvarðanir um stýrivexti eða inngrip á gjaldeyrismarkað og annað því um líkt og áherslur í ríkisfjármálum og almennri hagstjórn. Það er barnalegt að reyna að stilla dæminu þannig upp að það sé bara einn aðili sem beri ábyrgð á þessu öllu. Það er ódýrt.

Varðandi áhuga hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar á því að aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarstarfsemi þá bið ég hann hjartanlega velkominn í hópinn, aftur, á ég kannski að segja. Það er nú lítil málsvörn hjá hv. þingmanni að einhverjir hafi kannski ekki gert eitthvað fyrir þremur, fjórum eða fimm árum síðan. Nú fer Framsókn með völdin, vonandi fer þá eitthvað að gerast. Ég get farið yfir það við betra tækifæri hvernig fjármálalöggjöfin var endurskoðuð og meðal annars lagður grunnur að því að taka upplýstar ákvarðanir um framtíðarlöggjöf á þessu sviði með mikilli vinnu á síðasta kjörtímabili. Þar á meðal með því að fá erlenda sérfræðinga til ráðgjafar sem stóðu að gerð mikillar skýrslu og reyndar tveggja sem var dreift á Alþingi 2012. En síðan hefur lítið gerst, það er alveg rétt. Það var strax stoppað upp í hættulegustu ágallana eftir hrunið, meðal annars á grundvelli þess sem kom fram í ljósi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, banna lánveitingar til eigenda o.s.frv. En löggjöfin að öðru leyti var í skoðun og hefur verið enn þá.


Efnisorð er vísa í ræðuna