145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[15:45]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Ég átti nú að vera fyrsti ræðumaður í þessari umræðu hér á eftir um þetta mál. Ég er svolítið undrandi á þeim skýringum stjórnarliða, hv. þingmanna, að það sé nægilegt að formaður nefndar sé viðstaddur. Það er ekki sá sem ég vil eiga orðastað við um þetta mál, sérstaklega vegna eðlis þess. Það er ekki um framtíðarsýn í þróunarsamvinnu heldur er það um stofnanastrúktúr sem heyrir undir ráðuneyti utanríkisráðherra. Þess vegna er það algerlega ófullnægjandi, þó að það sé góðra gjalda vert, að hv. formaður nefndarinnar sé viðstaddur þessa umræðu. Það er auðvitað sjálfsagt, þarf varla að tiltaka það, en auðvitað á ráðherrann sjálfur að vera viðstaddur umræðu um stofnanir sem heyra undir hann og þær breytingar sem hann vill gera á þeim.