145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[15:48]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka undir þær athugasemdir sem hér hafa komið fram undir þessum lið og kannski fyrst og fremst vegna þess að þetta er óvenjulegt mál að því leytinu til að hæstv. utanríkisráðherra mælir fyrir málinu sem er mjög einmana á þingmálaskrá ráðherrans. Það er eins og það sé um það bil það eina sem hann dreymir um í sínu pólitíska bókhaldi á þessu þingi. Hann tekur ekki þátt í 1. umr. heldur situr bara hér og tekur svo einhvern lokasnúning, fyrst og fremst af leiðindum, í lok 1. umr. Dylgjunum sem greinargerðin er þrungin af er algjörlega ósvarað. Svo fæst ekki nokkur stjórnarliði til að mæla málinu bót. Það er einn stjórnarliði sem hefur rætt þetta mál og það er hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason sem sagði: Það á ekki að skaka til stofnunum að óþörfu. Það er sem sagt línan sem við höfum frá þingmönnum stjórnarflokkanna í þessu máli.

Það er algerlega óviðunandi annað en (Forseti hringir.) að ráðherrann komi hingað og klári það að gera grein fyrir pólitísku mikilvægi þessa máls sem staða þess ber vott um og svari þeim spurningum sem hér hafa verið bornar upp.