145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[15:54]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hafa kallað eftir að hæstv. ráðherra sé viðstaddur þessa umræðu og taki þátt í henni. Það er alveg rétt sem hér var sagt að ráðherra mælti fyrir málinu en tók síðan lítinn sem engan þátt í umræðunni um málið. Hann sagði vissulega nokkur orð í lokin en fjölda spurninga var beint sérstaklega til hæstv. ráðherra sem er enn ósvarað og málið er þannig vaxið að það er ráðherrann sem verður að svara þeim spurningum, það er ekki hægt að benda bara á hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem er formaður hv. utanríkismálanefndar. Málið er að það á að leggja niður stofnun og færa fjármuni og alla starfsemi hennar undir ráðuneyti hæstv. utanríkisráðherra. Það hlýtur því að vera þessi sami hæstv. utanríkisráðherra sem verður að eiga samtalið við þingið (Forseti hringir.) og svara spurningum þingmanna.