145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[16:00]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta er algjörlega óásættanleg staða sem hér er komin upp að ekki skuli nokkur maður geta staðið með málinu. Mér finnst þetta niðurlægjandi fyrir Alþingi. Það er niðurlægjandi fyrir Alþingi að ráðherra geti komið hér og talað fyrir einhverri vitleysu. Hann talar bara fyrir einhverri vitleysu, situr svo og þegir á bekknum þangað til umræðu er lokið, heldur svo skætingnum áfram og svo ætla stjórnarliðar að fara á græna takkann eins og fé sem leitt er til slátrunar. Hvers lags eiginlega meðferð er þetta á þingræðinu? Ég bara spyr, virðulegi forseti, ég skil ekki hvert ríkisstjórnarflokkarnir eru eiginlega að fara.

Það er þannig að í þessu máli á að taka stofnun og setja hana inn í ráðuneyti. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra talaði fyrir máli í fyrra um það að taka verkefni út úr ráðuneytinu og breyta í stofnun. Það er alger ringulreið í þessari stefnu hérna út og suður. Þetta er algerlega óásættanlegt, forseti, og ég spyr: (Forseti hringir.) Eru engin takmörk fyrir því hvaða afsakanir ráðherrar geta dregið upp úr hatti sínum og haldið fram að séu í þágu sinna starfa (Forseti hringir.) til að komast hjá því að standa fyrir máli sínu frammi fyrir Alþingi? Ég hef áhyggjur af því.