145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[16:03]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það hefur orðið einhver samsláttur hjá hæstv. utanríkisráðherra í þessu máli. Hann getur auðvitað þegar hann fer með jakkafötin sín í hreinsun skilið þau eftir þar og farið, það er einhver annar sem sér um að hreinsa þau fyrir hann, en því er öðruvísi farið þegar kemur að eina þingmáli hæstv. ráðherra. Hann verður að gjöra svo vel að fylgja því í gegnum þingið. Þetta er ekki eitthvað sem hann getur skilið hér eftir og ætlast til þess að aðrir sjái um fyrir hann. Hann þarf að rökstyðja þetta. Það er meðal annars það sem fram kemur í umsögnum, að það vanti allan rökstuðning í þetta mál.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir sagði áðan, þingmálalisti hæstv. ráðherra er afskaplega fátæklegur. Það er undarlegt að menn skuli eiga þetta erindi eitt í pólitík, eftir allt það basl sem í því felst að leggja sig í þetta starf, að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður og undir ráðuneytið. Að menn skuli hafa flutt sig alla leið frá Sauðárkróki til að gera það er ráðgáta.