145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[16:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég tel mig hafa rökstutt fyrr í ræðu með nokkuð fullnægjandi hætti að það sé eðlileg krafa að hæstv. ráðherra sé viðstaddur umræðu um þetta mál, 2. umr. og meginumræðu um málið. Nú er upplýst að hann sé að funda með framsóknarmönnum á Ísafirði. Ég verð auðvitað að viðurkenna að ég hef vissa samúð með því sjónarmiði að þingmenn í víðlendum landsbyggðarkjördæmum verða stundum að reyna að rækta þau tengsl samhliða öðrum störfum. Nú veit ég ekki hvað þetta verður fjölmennur fundur á Ísafirði og hvort ráðherra fær mikinn stuðning við þetta mál þar, en þá er spurningin sú hvort þingið eigi ekki einfaldlega að sýna þessum aðstæðum ráðherra skilning úr því að þær eru orðnar staðreynd og ráðherra væntanlega í loftinu, ef ekki kominn vestur, og taka þetta mál af dagskrá þangað til hæstv. ráðherra er kominn úr sinni reisu. Við skulum vona að það verði flogið frá Ísafirði og hann geti svo skotist norður á Sauðárkrók eftir umræður um þetta mál á morgun. Ég held að það sé langeðlilegast í ljósi allra aðstæðna að við frestum frekara framhaldi þessarar umræðu þar til hæstv. utanríkisráðherra hefur ráðgast við sína framsóknarmenn.