145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:09]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að gera formlega athugasemd við að hæstv. utanríkisráðherra sé ekki viðstaddur þessa umræðu. Þegar ég fór að hugsa um það sem ég ætlaði að segja um þetta mál þegar ég setti mig á mælendaskrá fyrir nokkrum vikum í þessari umræðu fór ég að skoða samantektina um málið á vef þingsins til að rifja upp nákvæmlega hvaða röksemdir lægju að baki þessari ráðstöfun hæstv. utanríkisráðherra.

Markmiðið með því að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun er að auka skilvirkni og hagkvæmni í stjórnsýslu alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands og gera stefnumótun málaflokksins markvissari. Meðal helstu breytinga og nýjunga í málinu er að færa öll verkefni Þróunarsamvinnustofnunar til utanríkisráðuneytisins sem færi eftir gildistöku laganna með framkvæmd allrar þróunarsamvinnu á vegum íslenskra stjórnvalda. Þróunarsamvinnustofnun verður þá lögð niður og lagðar verða til breytingar á stærð og hlutverki þróunarsamvinnunefndar, núverandi samstarfsráð um alþjóðlega þróunarsamvinnu verður lagt niður og lagðar til breytingar á lögum um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu til að mæta þróun sem átt hefur sér stað í því umhverfi sem hún starfar. Svo segir í samantekt um þetta þingmál.

Ég staldra strax við eitt atriði sem fjallað er um í markmiðssetningu laganna, þ.e. að gera stefnumótun málaflokksins markvissari. Það sem ég velti fyrir mér í því samhengi er að stefnumótun í þessum málaflokki er nokkuð sem ég mundi gjarnan vilja vera að ræða í þessum sal. Það finnst mér skemmtilegri, þarfari og nauðsynlegri umræða en umræða um stofnanastrúktúr þessa málaflokks, þ.e. hvað við ætlum að gera, hvernig við ætlum að beita okkur á þessum vettvangi, hvar, í hvaða tilgangi og með hvaða hætti. Það er nefnilega þannig í pólitík að við erum yfirleitt að fjalla um markmið, stefnu og framtíðarsýn annars vegar og hins vegar mjög oft, en sem betur fer sjaldnar um verkfærin sem við notum til að ná þessum markmiðum okkar. Þegar maður horfir á fátæklega þingmálaskrá hæstv. utanríkisráðherra staldrar maður ósjálfrátt við þá staðreynd að þar er lítið um mál sem tilheyra fyrri flokknum; stefnumótun, framtíðarsýn, markmið, erindi í pólitík.

Ég segi fyrir mitt leyti að ég hef mjög ákveðnar skoðanir á málaflokknum þróunarsamvinnu. Ég hef upplifað sjálfur hvernig hún getur skipt sköpum fyrir lítil samfélög. Ég var einu sinni á ferð um litla eyju utan við Jemen sem er á mörkum Arabíska hafsins og Indlandshafs og heyrir undir Jemen. Þar er lítil 50 þús. manna byggð, eingöngu um 2.000 gestir á ári, engir innviðir, gríðarlega mikil fátækt og varla hægt að tala um þróað samfélag. Þar var samt sem áður einhver vísir að ferðaþjónustu. Þar voru leiðsögumenn sem voru enskumælandi og kunnu á tölvu. Ástæðan fyrir því var sú að þróunarhjálp Sameinuðu þjóðanna hafði lagt áherslu á að kenna hvort tveggja á svæðinu. Það gerði að verkum að þarna varð til fámennur hópur sem gat þróað með sér, stofnað og starfrækt ferðaþjónustu. Þó að hún væri ekki mikil að burðum var hún eigi að síður merki um það hvernig ekki svo mikil fjárfesting getur látið gott af sér leiða með einföldum hætti með því að kenna einhverjum að setja upp heimasíðu og kenna einhverjum ensku sem getur leitt til þess að hann getur síðan séð sér farborða og stuðlað að efnahagslegum framförum í byggð sinni.

Ég held að slík þróunarhjálp þurfi að vera með miklu víðtækari hætti víða um heiminn. Ég held að mörg þau vandamál sem við horfum á í dag í hinum vestræna heimi — þá er ég að tala um hryðjuverkaógn, flóttamannastraum, hungursneyð og þær miklu ógnir sem erfitt er fyrir okkur að skilja sem búum við velmegun á Íslandi — að sá málaflokkur gæti verið öðruvísi. Það væri hægt að hafa áhrif á hann með markvissri stefnu, með langtímahugsun, ákvörðunum og fjárfestingu á svæðum þar sem það gæti raunverulega haft áhrif. Ég held að á þeim svæðum þar sem fjölskyldur þurfa ekki að hafa áhyggjur af efnahagslegri framtíð sinni og hafa í sig og á, séu minni líkur á róstum, átökum, stríði, og minni líkur á því á því að hægt sé að innræta einstaklingum það að þeir séu afgangs, ekki virtir eða að þeir þurfi að grípa til vopna til að berjast fyrir tilverurétti sínum og sinna. Ég væri tilbúinn að ræða það. Ég væri tilbúinn til að taka þátt í viðræðum og samræðum við hæstv. utanríkisráðherra um þá stefnumótun.

Ég mundi til dæmis vilja gjarnan ræða framlag Íslendinga til þessa málaflokks og þann niðurskurð og samdrátt sem núverandi stjórnarflokkar hafa staðið fyrir í þeim efnum. Það væri umræðuefni sem ég væri tilbúinn að eyða miklum tíma í, meiri en í umræðu um stofnanastrúktúr stjórnsýslunnar þegar kemur að málaflokknum. Ég væri auðvitað tilbúinn til að ræða slíkt ef sýnt væri með óvefengjanlegum hætti að stofnanastrúktúrinn stæði verkefninu fyrir þrifum, að menn gætu ekki sinnt því verkefni sem samfélagið hefur ákveðið að ráðast í af því að eitthvað væri að skipulaginu. Er það þannig í þessu máli? Nei, það er reyndar ekki þannig.

Ég hef skoðað þær umsagnir sem bæst hafa í sarpinn eftir umræðu um málið síðastliðið vor og gríp niður í umsögn frá Alþýðusambandinu. Þar er vitnað í skýrslu um þróunarsamvinnu Íslands, skipulag, skilvirkni og árangur, sem frumvarpið byggir að mestu á. Í umsögninni segir að ýmsar spurningar vakni. Þær séu eftirfarandi: Hver eru fagleg rök sem liggja til grundvallar áformum um sameiningu? Gilda önnur lögmál um þróunarmál en aðra málaflokka í ljósi þess að stjórnsýslan hefur almennt þróast æ meira á þann veg að stefnumörkun og eftirlit með framkvæmd hennar er á hendi ráðuneyta en framkvæmdin sjálf er á hendi faglegra stofnana? Hvert er álit þróunarsamvinnunefndar OECD á sameiningu? Af hverju er ekki beðið niðurstöðu þróunarsamvinnunefndar á skipulagi og árangri þróunaraðstoðar sem fyrirhuguð er á næsta ári? Hefur verið athuguð reynsla annarra ríkja af því að hafa sjálfstæða stofnun utan um þróunarsamvinnu, eins og til dæmis í Svíþjóð? Alþýðusambandið leggur til að ákvörðun um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu á Íslandi verði frestað þangað til þeim spurningum hefur verið svarað af fagaðilum og áður en endanleg ákvörðun er tekin. Mér finnast það vera mjög gild rök og gildar spurningar sem hér eru settar fram.

Mér finnst ekki boðlegt þegar við ræðum þessi mál að það sé gert án þess að ráðherra málaflokksins, sá sem telur sig helst eiga þetta erindi í pólitík og leggur þetta mál fram, sitji fyrir svörum og taki þátt í umræðunni. Ég er sannfærður um að eitthvað hlýtur að vanta í málið. Það hlýtur að vera eitthvað í því sem ekki hefur komið fram því að rökstuðningurinn er svo hróplega ófullnægjandi. Ég velti fyrir mér hvort utanríkisráðherra sé þeirrar skoðunar að það þurfi engan rökstuðning í þessu máli. Það sé einfaldlega þannig að honum finnist að það væri þægilegra fyrir sig sem ráðherra að hafa þennan málaflokk í sínu ráðuneyti, þess vegna eigi hann að fá að ráða því, vegna þess að hann sé ráðherra. Það virkar í mínum huga ekki þannig. Mér finnst ekki í lagi að einum manni dugi það að vilja fá svona stofnun undir ráðuneyti sitt til að það sé þá gert.

Það er auðvitað þannig að í stofnanastrúktúr íslenskrar stjórnsýslu eiga ráðuneytin í vök að verjast eða eru ekki nægilega vel í stakk búin til að mæta faglegri þekkingu undirstofnana sinna. Oft hallar á ráðuneytið þegar kemur að ákvarðanatöku því að hún getur byggt á mikilli stofnanaþekkingu, ráðuneytin geta verið undirmönnuð gagnvart undirstofnunum og svo framvegis. Í sumum tilfellum geta verið rök fyrir því, svo maður reyni að gerast málsvari hæstv. utanríkisráðherra í þessu máli, að færa stofnanir undir ráðuneyti eða einhvern hluta af starfssviði þeirra, og, eins og segir í umsögn Alþýðusambandsins, að eftirlitið sé styrkt innan ráðuneytisins svo menn fylgi betur eftir verkefnum. En það verður ekki séð á því máli sem hér er til umfjöllunar að því sé til að dreifa og það sé ástæða áhuga hæstv. utanríkisráðherra á að gera þessa breytingu.

Þetta voru þær hugrenningar sem ég þykist viss um að hafi verið mér efst í huga þegar ég setti mig á mælendaskrá í þessu máli fyrir nokkrum vikum. Það er dálítið erfitt að koma aftur inn í þessa umræðu eftir hlé. Það væri mjög æskilegt að geta bæði heyrt mótrök hæstv. utanríkisráðherra, þ.e. rök hans fyrir þessari breytingu, og fengið samtal um hvað það er nákvæmlega í þróunarsamvinnustefnu Íslendinga sem hann hyggst ná fram með þessu, hver eru markmiðin og hvað verður auðveldara og skýrara með þessari breytingu. Hið raunverulega inntak stefnunnar hlýtur að vera það sem mestu máli skiptir; hvaða markmið eru það sem hæstv. ráðherra sér fyrir sér? Ég hélt að menn væru tilbúnir að ræða hvenær sem er hvers vegna þeir vilja leggja niður stofnun og færa starfsemina inn í ráðuneyti eða búa til nýja stofnun. En það þurfa að vera einhver ákveðin rök fyrir því sem lúta raunverulega að stefnunni sjálfri, að markmiðum sem menn hafa í þessum efnum.

Ég nefni til dæmis þá þróun sem við höfum séð í málefnum ferðaþjónustunnar hér á landi. Nú eru tvö mál til umfjöllunar í minni nefnd, umhverfis- og samgöngunefnd, sem snerta á þeirri öru þróun sem við höfum séð í ferðamannaiðnaði á síðustu árum; annars vegar landskipulag og hins vegar uppbygging innviða. Hvort tveggja eru mál sem lúta að langtímahugsun og skipulagningu. Þegar maður horfir yfir það svið sér maður að mjög víða eru til verkfæri, stofnanir, úrræði og bjargir til að takast á við málaflokkinn sem ekki er verið að nýta. Það má með öðrum orðum líkja þessu við smið sem er gjarn á að kaupa sér ný verkfæri — þeir eru nokkrir þannig — án þess að taka til í verkfærakistunni, án þess að taka allt upp úr kistunni og sjá hvað er til staðar og má nýta. Ef menn gera það ekki með reglulegu millibili, skipulega og með markmið og stefnumótun í huga, sitja þeir uppi með stjórnskipulegan óskapnað. Þess vegna er mjög mikilvægt að menn ræði þetta alltaf út frá markmiðssetningu og sjái fyrir sér hverju þeir vilja ná fram og skipuleggi síðan verkfærakistuna út frá því. Í þessu máli liggur það ekki einu sinni fyrir. Menn hafa ekki einu sinni tekið umræðuna um hvert verkefnið sé, framtíðarsýnin, stefnumótunin, áður en þeir bæta við nýju verkefni eða færa til verkefni í sínum verkfærakassa. Það er ófullnægjandi og óboðlegt að við séum hér að ræða einhverja yfirborðsbreytingu sem kalla mætti, með leyfi forseta, „cosmetics“ í stjórnsýslunni. Og sérstaklega er það óboðlegt að hæstv. ráðherra sé ekki viðstaddur til að taka þátt í umræðunni.

Ég harma það og áskil mér rétt til að reyna eftir fremsta megni að eiga orðastað við hann um þetta mál. Mér finnst það skipta máli. Mér finnst ekki ganga að menn umgangist þingið eins og unglingspiltur sem er fluttur að heiman en kemur með óhreina þvottinn til mömmu sinnar og skilur hann eftir þar og vill helst ekki hugsa um hann. Ég vil að hæstv. ráðherra fylgi sínum málum eftir. Þau eru ekki það mörg að ofrausn sé af hans hálfu og hans tíma og hans skipulagningar að hann sé hér viðstaddur og fylgi málaflokknum eftir. Það er í rauninni algert lágmark, sérstaklega þegar kemur að máli eins og þessu þar sem menn eru að gera breytingar á stofnanastrúktúr sem heyrir beint undir ráðherrann og leggja fram mál sem eru, að því eru virðist, nánast eingöngu byggð á geðþóttahugmyndum hæstv. ráðherra sjálfs.