145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:28]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er meðal þeirra umsagna sem ég hef lesið í þessu máli. Mér finnast þær einmitt mjög sannfærandi. Mér finnast þetta vera röksemdir sem við eigum að hlusta á. Ef maður reynir að ímynda sér hvað býr að baki því að ráðherra einhvers málaflokks vilji taka stofnanir og setja undir sig er það væntanlega af því að hann telji sig ekki hafa næga stjórn á stofnuninni, það sé á einhvern hátt ekki farið að þeim fyrirmælum sem hann gefur út um málaflokkinn. Það er auðvitað nokkuð sem við vildum gjarnan ræða.

Ég mundi gjarnan vilja fá að heyra hvers vegna hæstv. utanríkisráðherra, í þessu tilfelli, telji sig þess betur umkominn að fara með framkvæmd þessara mála en þeir fagaðilar sem um árabil hafa unnið í þessum málaflokki. Þetta snýst um framkvæmd málaflokksins. Stefnumótunin á að fara fram hér. Markmiðasetningin á að fara fram hér. Það er það sem við eigum að vera að ræða hér. Ég þarf lítið annað að gera en hlusta á mjög sannfærandi, ástríðuþrungnar ræður fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra Össurar Skarphéðinssonar í þinginu til að vita það að þessum málaflokki hlýtur að vera mjög vel fyrir komið (Forseti hringir.) þar sem hann er í dag.