145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:34]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að menn hljóti að mótmæla svona framkomu og það þurfi að vera einhver knýjandi rök, einhverjar alvöruröksemdir sem búa að baki því að rífa mál út í hvelli áður en menn hafa fengið tækifæri til þess að ræða við alla umsagnaraðila. Algjörlega fáránlegt. Þess vegna ræðum við þetta mál hér nú í algjöru tómarúmi okkar á milli, skoðanasystkin um málið í rauninni. Enginn sem kemur og ver málið. Hæstv. ráðherra er fjarverandi að sinna eigin stjórnmálaflokki í eigin kjördæmi á meðan þetta mál er tekið fyrir á dagskrá þingsins. Þetta er óásættanlegt og fyrir neðan allar hellur. Ég væri tilbúinn til þess að eiga í rökræðu við hæstv. ráðherra um efni þessa máls ef fyrir lægi hvaða áhrif það hefði á stefnu og hvaða markmið hann hefði um þróun þessa málaflokks til lengri tíma litið. Þetta hér er meira eins og einhvers konar tiltekt í stjórnsýslunni sem maður veit ekki nákvæmlega af hverju er sprottin og til hvers hún er. Það fylgir ekki málinu. Það er auðvitað það sem umsagnaraðilar benda á.

Á öðrum stað mættum við alveg taka mál undir ráðuneyti. Ég nefni til dæmis nýstofnaða stjórnstöð ferðamála. Þar er málaflokkur sem menn ættu auðvitað fyrir löngu að vera búnir að stofna sérstakt ráðuneyti um og hafa til þess heimild í lögum og búa til tímabundið ráðuneyti ferðamála til þess að undirbúa þann málaflokk. Hann er algerlega í skötulíki og menn eru í kapphlaupi við tímann að forklúðra þeim málaflokki í þessari ríkisstjórn. Það er bara verið að bæta hverju laginu ofan á annað í þeim efnum.