145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:39]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir þann rausnarskap að láta mér eftir andsvarið sitt þar sem það varð greinilega einhver misbrestur í samskiptum mínum og hæstv. forseta áðan. Takk kærlega fyrir. Ég met það mikils.

Ég vil þakka hv. þm. Róbert Marshall fyrir ræðu hans og verð að segja að ég er hjartanlega sammála. Ég mundi svo gjarnan vilja vera að ræða stefnumótun, markmið og framtíðarsýn en ekki stofnanastrúktúr og ekki hvað síst í því ljósi að við höfum verið að horfa fram á lækkaðar upphæðir til þróunarsamvinnu eða lækkað hlutfall af fjárlögum til þróunarsamvinnu, þótt samþykkt hafi verið áætlun um að fara að gefa vel í. Mér finnst virkilega miður að við séum ekki að ræða það heldur að leggja stofnunina niður, stofnun sem fær alls staðar gríðarlega góðar umsagnir og ekki síst frá DAC, sem ég tel að skipti mjög miklu máli.

En í því sambandi að ekki er verið að setja næga fjármuni í málið langar mig að spyrja hv. þingmann út það sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu þar sem talað er um sterkari tengsl milli annarra utanríkismála og þróunarsamvinnu. (Forseti hringir.) Er ekki sérlega hættulegt þegar við erum með svona litla peninga í spilinu að fara að krulla okkar utanríkispólitískum áherslum (Forseti hringir.) inn í þetta í stað þess að hafa þarfir fátækra ríkja fyrst og fremst að leiðarljósi? Er þetta ekki hættuleg vegferð?