145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:41]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í umræðum hér í gær um voðaverkin í París í síðustu viku sagði ég meðal annars að meðal þeirra gilda sem ég held að menn á Vesturlöndum mættu alveg velta fyrir sér að endurskoða til lengri tíma litið væru gildi afskipta og hagsmunagæslu í öðrum heimshlutum. Ég held að sú þróun sem við höfum verið að horfa framan í við botn Miðjarðarhafs sé að stórum hluta sprottin af afskiptum Vesturlanda og hagsmunagæslu á þessum svæðum og það er auðvitað eitthvað allt annað en þróunarsamvinna og á ekki að spila saman.

Síðan geta menn líka velt fyrir sér að þegar stofnunum sem heyra undir ráðuneyti eru falin ákveðin verkefni sem síðan fylgir ekki nægt fjármagn til að standa undir, nefnum t.d. Veðurstofu Íslands eða Vegagerðina eða hvað sem nöfnum tjáir að nefna í þeim efnum, þá heyrist auðvitað hljóð úr horni þegar fjármagn skortir, þegar greinilega er verið að vanáætla miðað við markmiðssetningu og ekki er staðið við þau verkefni sem ákveðin hafa verið. Þetta horfir allt öðruvísi við þegar stofnanir eru lagðar niður og heyra undir ráðuneyti, vegna þess að skrifstofur ráðuneyta eru ekki að fara að mótmæla fjárframlögum til málaflokksins. Þau fara ekki að vekja athygli á því að hér sé verið að skera niður og sú ákvörðun liggi ekki fyrir. Þess vegna er það eitthvað sem menn þurfa að fá alveg á hreint í þessari umræðu: Til hvers er hæstv. utanríkisráðherra að gera þetta? Af hverju leggur hann svo mikla áherslu á það að fá þessa stofnun inn í ráðuneyti sitt? Er það til að auka vöxt málaflokksins og gera meira eða vill hann draga saman seglin?