145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:09]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, það er nokkuð viðurhlutamikið að leggja niður og láta hverfa af yfirborði jarðar opinbera stofnun með öllu því sem fylgir. Ráðningasambandið hverfur, sérstökum starfsmönnum hennar verður hrært inn í ráðuneytið sem aftur vekur upp ýmsar spurningar um hvernig verður með nýtingu mannaflans þar innan búðar, hvort menn verði til dæmis sendir á erlenda pósta ráðuneytisins o.s.frv. Það vill nú svo til að utanríkisráðuneytið er dálítið sérstakt ráðuneyti. Það er ekki alveg hefðbundið í þeim skilningi að þar er starfsfólk á ferð og flugi og starfandi á víxl heima eða í sendiráðum og verkefnum erlendis sem ég er ekkert endilega viss um að eigi mjög vel saman við þetta.

Ég tek aftur til þess að mér finnst það ekki vera í sjálfu sér nein rök að ráðuneytið hafi skírt upp á nýtt einhverja skrifstofu, það hafi orðið einhver nafnbreyting eða smá skipulagsbreyting í ráðuneytinu og vegna þess að þar sé núna til eitthvað sem heitir þróunarsamvinnuskrifstofa þá séu það orðin rök sem slík fyrir því að leggja Þróunarsamvinnustofnun sjálfa niður. Það eru engin rök.

Ef þetta væri einhver viðameiri uppstokkun í málaflokknum sem ég sé svo sem enga sérstaka þörf fyrir, samanber það hversu nýleg löggjöfin er og hversu góða dóma hún hefur fengið í úttektum, mætti ræða það. Ég hef oft ímyndað mér að þeir tímar kynnu að ganga í garð á Íslandi, af því að embætti utanríkisráðherra eins og sumir hér í salnum þekkja er annasamt og því fylgja mikil ferðalög, að það yrði eitt af þeim ráðuneytum þar sem fjölgað yrði ráðherrum, það kæmi formlegur aðstoðarráðherra eða eitthvað slíkt og að hann færi með þróunarsamvinnumálin til að létta þeim málaflokki af utanríkisráðherranum sem væri í hinu. Ef þetta væri tengt við eitthvað slíkt sem maður sæi sóknarsvip í (Forseti hringir.) þá væri maður tilbúinn að skoða það en það er það bara ekki. Þetta er bara þessi eina breyting, undarlega breyting, (Forseti hringir.) órökstudda breyting að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun.