145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þess vegna er ekki verjandi að hæstv. ráðherra sé fjarverandi hér lon og don og komi ekki og svari fyrir þetta mál. Hafi menn verið í vafa um að það væri réttmæt krafa hér í byrjun dags þá ættu þeir ekki að efast um það lengur. Það er auðvitað þannig, eins og allt liggur í þessu máli, að ráðherrann einn getur svarað fyrir og staðið fyrir þeim málstað sem hann ber hérna fram. Það er algerlega búið að afhjúpa að það er ekkert á bak við þetta mál annað en vilji ráðherrans sjálfs. Hann hefur bitið þetta í sig. Kannski var hann upphaflega sannfærður um það af einhverjum einbættisgránanum í utanríkisráðuneytinu, sem liggja margir hverjir undir grun um að hafa lengi langað í þessa breytingu. Það hefur aldrei verið látið eftir þeim fram fyrr en núverandi utanríkisráðherra virðist hafa gleypt þetta hrátt og án mikillar skoðunar á málinu.

Þegar svo er komið verða lausnamiðaðir menn að fara að velta fyrir sér: Eru einhverjar leiðir í land út úr þessu? Er hægt að bjarga manninum einhvern veginn út úr þessari vitleysu með andlitið á réttum stað? Er hægt að ná einhverju samkomulagi um að setja þetta mál til hliðar um sinn og fara með það í einhvern úttektarfarveg, bíða eftir niðurstöðu DAC sem menn hafa hér nefnt og annað í þeim dúr? Ég sé ekki í fljótu bragði annað vænlegra í stöðunni þó að það sé auðvitað ekki gott að einhver óvissa hangi þá áfram yfir málaflokknum.

Ég hef sannfærst enn betur um það, m.a. hér í dag, að það þarf að gera allt sem hægt er til þess að koma í veg fyrir að ráðherrann komist upp með þetta. Maður hlýtur að skora á þingmenn í öllum flokkum, ekki bara í stjórnarandstöðunni heldur líka í stjórnarflokkunum, að setjast nú niður og hugsa sinn gang. Ætla menn virkilega að láta þetta gerast? Eru allir með góða samvisku fyrir því að greiða þessum ósköpum atkvæði þegar málið er í raun og veru algerlega hrunið til grunna hvað varðar einhver haldbær rök?