145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:01]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar og innlegg í þessa umræðu, og tek alveg sérstaklega undir það sem hann sagði. Það er vandmeðfarið verkefni að sameina stofnanir og út af fyrir sig er maður ekki alltaf á móti því. Við þingmenn Samfylkingarinnar samþykktum til dæmis umrædda sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar vegna þess að við teljum að það verði báðum stofnunum til góðs, en við vorum á móti aðferðinni sem er notuð. Mér finnst lítið rætt um þessa nýju leið, eftir þessa samþykkt ríkisstjórnarinnar, enda er hún bara til á minnisblaði og sem einföld samþykkt framkvæmdarvaldsins. Ég er mjög ósáttur við hvernig þeir ætla að ganga um þessar dyr.

Það kom til dæmis fram, í umræðum í atvinnuveganefnd um sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar, að ekkert samráð var haft við starfsmenn þessara stofnana. Þeir fengu ekkert að koma að málum. Þeir gerðu mestar athugasemdir við þá ólukkansleið sem þar er farin, að segja öllum starfsmönnum upp — það kom fram á fundi í þessari viku að forstöðumenn stofnana vita til dæmis ekkert um hvaða biðlaunaréttur muni virkjast við það — í staðinn fyrir að fara þá leið sem venjulega hefur verið farin, sem er að bjóða starfsmönnum áfram vinnu og sameina þetta þannig í samvinnu við stéttarfélög og starfsmenn eins og gert hefur verið í fjölmörgum atriðum. Ég nefni til dæmis við sameiningu samgöngustofnana sem bæði ég og hv. þingmaður komum að á sínum tíma og ég held að hafi tekist mjög vel.

En þarna er sem sagt farin ný leið. Ég spyr hv. þingmann út í það hvort hann hafi rekist á það í gögnum málsins, sem hann hefur að sjálfsögðu farið vel í gegnum — þessi nýja samþykkt ríkisstjórnarinnar er sú leið sem þarna á að fara með (Forseti hringir.) þeim ókostum sem ég hef hér gert að umtalsefni og eins og hv. þingmaður ræddi um er óljóst hvernig réttindi manna flytjast.