145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:04]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel tilefni til að taka þetta mál sérstaklega upp og ég ætla að leyfa mér líka að hvetja fjölmiðla í landinu til að sýna árvekni hvað þetta snertir, vegna þess að ég hef grun um að þetta sé liður í annarri þróun líka, þ.e. að víkja stéttarfélögunum til hliðar inni á vinnustaðnum. Menn eru að reyna að koma á einhverjum allsherjarkorporatisma, sem einhvern tíma var nefndur svo, við gerð kjarasamninga inn í framtíðina, þar sem menn ganga allir járnaðir til leiks. En á vinnustöðunum er það að verða hátturinn, óttast ég, að stéttarfélögunum er ýtt til hliðar.

Við reyndum, í tíð síðustu ríkisstjórnar, að standa vörð um hag starfsmanna þegar ráðist var í skipulagsbreytingar og sameiningu stofnana. Því miður gekk eftirleikurinn ekki alltaf upp og ég nefni Samgöngustofu þar sérstaklega. Þvert á loforð sem gefin voru, og ég tala þar nú bara fyrir sjálfan mig, var ekki staðið við þær skuldbindingar sem skyldi að öllu leyti. Það er ekki alveg séð fyrir endann á málalyktum hvað það snertir, en við þurfum að horfa mjög gagnrýnið, og líka með sjálfsgagnrýni, þegar við erum að tala um skipulagsbreytingar og fyrirheit og loforð sem starfsmönnum voru gefin.

Ég tek undir með hv. þm. Kristjáni L. Möller að það er mikilvægt að við tökum þetta mál til sérstakrar skoðunar og að við leitum eftir áliti stéttarfélaganna hvað þetta snertir. Ég mun ekki láta mitt þar eftir liggja.