145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:10]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að taka undir með þeim sem hér hafa talað. Ég held að það sé afar mikilvægt í ljósi þeirra deilna sem um málið eru að ráðherra komi hingað. Formaður utanríkismálanefndar hefur verið hér. Það er gott og blessað, en hún gerir sig ekki líklega enn sem komið er til að svara fyrir þær rangfærslur sem settar eru fram í greinargerð með frumvarpinu.

Þetta er 2. umr. og það er mikilvægt áður en lengra er haldið að hlutirnir séu á hreinu og ljóst hvort ráðherra tekur undir að þetta séu rangfærslur, eins og bent hefur verið á, og hvort hann hyggist þá leiðrétta þær eða hvort hv. formaður nefndarinnar telur að hlutunum verði breytt í ljósi þeirra athugasemda sem hér hafa verið settar fram.

Auðvitað eru stórar spurningar í málinu sem ekki hefur verið svarað. Ráðherra svaraði þeim ekki þegar hann kynnti málið í þinginu og síðan hafa aðrar spurningar komið fram sem nauðsynlegt er að fá svör við. Í ljósi þess hversu umdeilanlegt málið er, er æskilegt að ráðherra sé hér til svara.