145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:14]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hef spurningu sem ég vil leggja fyrir forsetadæmið og hún er þessi: Ef í ljós kemur að rangfærslur hafa komið fram í greinargerð með frumvarpi, hver á að svara fyrir það? Hver á að svara fyrir það þegar öflug samtök sem njóta almennrar virðingar og hafa starfað hér áratugum saman samfélaginu til heilla, eins og Alþýðusamband Íslands, benda á rangfærslur í umsögn sinni? Er hægt að ætlast til þess að það sé formaður utanríkismálanefndar sem á að svara fyrir það? Nei, ég held ekki. Hún ber enga ábyrgð á greinargerðinni. Það er einungis einn maður og það er hæstv. utanríkisráðherra.

Ég held að allir sem hér eru inni hljóti að vera sammála kröfu minni um þetta og ég spyr til dæmis: Hvað segir hv. þm. Óli Björn Kárason um þetta? Finnst honum eðlilegt að hæstv. utanríkisráðherra sé á flandri um Skagafjörð í erindum Framsóknarflokksins þegar þörf er á því að upplýsa hvort Alþýðusamband Íslands hitti naglann á höfuðið þegar það benti á þessa rangfærslu? Einhver þarf að svara fyrir það.