145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:17]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við erum hér margir þingmenn sem komum með ósk til forseta um að gert yrði hlé á umræðunni og beðið með hana þangað til hæstv. utanríkisráðherra gæti verið viðstaddur hana og svarað þeim spurningum sem hér hafa komið fram og mögulega reynt að gera atlögu að því með okkur að ná einhverri samstöðu um lúkningu þessa máls.

Mér finnst svolítið skrýtið að við stöndum bara öll hér og tölum út í tómið. Ég mundi gjarnan vilja fá einhver viðbrögð frá forseta við því með hvaða hætti ætti að bregðast við óskum okkar. Það er ekki eins og það sé allt vaðandi í málum frá ríkisstjórninni. Það eru ekkert mörg mál á dagskrá. Ég skil ekki af hverju menn þurfa að keyra þetta mál svona stíft fram. Væri ekki ráð að reyna alla vega að setjast sameiginlega yfir það og sjá hvort við getum náð einhverri lendingu? Þetta er orðin skrýtin þvermóðska, mjög skrýtin. Ég skil ekki hvers vegna menn leggja svona mikla áherslu á þetta mál.

Það væri gott að fá einhver viðbrögð frá forsetaembættinu hér í húsinu við þessum óskum.