145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:19]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér hafa komið fram í athugasemdum ýmissa hv. þingmanna við fundarstjórn forseta þau tíðindi að hæstv. utanríkisráðherra sé að sinna framsóknarmönnum og á móti þeim hefur ekki verið mælt. Hann er sem sagt ekki að sinna skyldum sínum gagnvart þinginu þó að um það sé beðið, en forseti hefur ekki gert þinginu grein fyrir því hvort hæstv. ráðherra hafi verið gert viðvart um þessa ósk þingsins.

Ég vil spyrja hæstv. forseta vegna þess að nú liggur fyrir að umræðunni verður haldið áfram hér á morgun: Liggur ekki ljóst fyrir að það eru mjög eindregnar óskir í þingsal um að hæstv. ráðherra verði viðstaddur umræðuna á morgun ef ekki gengur að kalla hann til þings í dag? Ef útséð er um það að ráðherra taki þátt í umræðunni með einhverju móti, er þetta þá ekki gott dæmi um mál þar sem þingið á að sýna mátt sinn og megin og utanríkismálanefnd á að freista þess að ná hér (Forseti hringir.) þverpólitískri lendingu í málinu? Er þetta ekki nógu mikilvægt mál til þess?