145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:46]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í rauninni skil ég alveg og mætavel áhuga Sjálfstæðisflokksins að keyra í gegn frumvarp um opinber fjármál. Ef ég væri þannig þenkjandi að ég vildi fara með ríkisfjármálin og afgreiðslu þeirra inn í svipaðan farveg og gerist hjá stórfyrirtækjum í landinu mundi ég taka slíku frumvarpi fegins hendi og hugsanlega berjast fyrir því af mikilli hugsjón, nema þetta er bara ekki mín hugsjón. Þetta er ekki stórfyrirtæki, íslenska ríkið og okkar samfélag, þetta er samfélag og það á ekki að innleiða aðferðafræði stórfyrirtækjanna þar.

En við erum ekki að ræða um opinber fjármál. Ég er einvörðungu að setja það í samhengi hugsanlegra hrossakaupa um þetta mál. Ég held reyndar að málið sé hugsanlega verra en þetta og vísa ég þar í orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem telur að ekki sé aðeins andstöðu að finna innan Sjálfstæðisflokksins gegn málinu, heldur meðal framsóknarmanna einnig. Hann hefur leitt fram rök þar að lútandi. Hvað stendur þá eftir? Þá stendur það eitt eftir að þetta er fyrst og fremst hugsjónamál og kappsmál núverandi hæstv. utanríkisráðherra, að fá málið keyrt í gegn, og þá hugsanlega stöku þingmanna Framsóknarflokksins sem eru sannfærðir um það sjálfir að það sé til góðs.

Í ljósi þess að komið hafa fram mjög alvarlegar athugasemdir við frumvarpið og sérstaklega við greinargerð sem er sögð byggja á rangtúlkunum og dylgjum, þá vil ég spyrja hv. þingmann: Er ekki einsýnt að við verðum að gera hlé á umræðunni þar til hæstv. utanríkisráðherra hefur komið til þingsins og staðið fyrir sínu máli og hrakið það sem menn telja vera ranghugmyndir og rangtúlkanir í greinargerð frumvarps sem hann er ábyrgur fyrir?