145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:51]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Mér datt nú í hug í ljósi umræðunnar að þessu máli væri ekki sýndur neinn sómi af hálfu ríkisstjórnarflokkanna. Það er enginn áhugi, engin sannfæring. Maður spyr sig: Hvers vegna er Þróunarsamvinnustofnun vantreyst með þeim hætti sem birtist í þessu frumvarpi? Hvað hefur ekki verið samhæft því að hér er verið að tala um að samhæfa?

Þingmaðurinn ræddi einmitt Ríkisendurskoðun og fyrirkomulagið sem hún benti á, þ.e. að ekki væri sami aðili sem mótaði stefnuna og framkvæmdi hana.

Af því að við vorum saman á málþingi áðan þar sem var meðal annars verið að ræða um langtímastefnumótun þá kemur fram í áliti stjórnsýslufræðings, sem þótti ekki boðlegt við gerð þessa frumvarps, að lykillinn að framþróun þróunarsamvinnu Íslands sé skipulögð stefnumótun sem sé forsenda þess að finna megi leiðir til að ráðstafa auknum framlögum Íslands þannig að skilvirkni og gagnsemi framlagsins verði sem best tryggð. Ég tek undir það því að mér finnst þetta vera eitthvað sem hlýtur að þurfa að hafa yfirsýn yfir. Þróunarsamvinnustofnun hefur frekar fengið rós í hnappagatið en hitt, en hið sama verður ekki hægt að segja um ráðuneytið. Nú erum við með mörg verkefni undir ráðuneytinu. Þar hefur verið talað um skóla Sameinuðu þjóðanna og bent á friðargæsluna en aldrei hafa verið gerðar neinar sérstakar úttektir eða birtur neinn tiltekinn árangur í hvorugu dæminu. Telur þingmaðurinn ekki að þetta veiki fagleg vinnubrögð í ljósi þeirra upplýsinga sem við höfum um önnur verkefni sem eru í ráðuneytinu? Ekki hefur það verið svo að Ríkisendurskoðun geri stjórnsýsluúttekt (Forseti hringir.) á ráðuneyti, eða þekkir þingmaðurinn til þess?