145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:07]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Er í alvörunni enginn vilji til að eiga við okkur samtal hérna um þetta mál? Við stjórnarandstöðuþingmenn höfum ekki mörg önnur verkfæri til að koma á framfæri óánægju okkar með einhvern málatilbúnað en þennan ræðustól. Ég hefði haldið að hingað kæmu stjórnarþingmenn og reyndu að segja okkur eitthvað um þann asa sem er á þessu máli og af hverju menn höfnuðu jafningjamati á þessari stofnun sem menn ætla núna að leggja niður og setja þar með málaflokkinn í óvissufarveg.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst gríðarleg vanvirðing við Alþingi að hér skuli vera mál þar sem er jafn mikil andstaða og raun ber vitni og ekki einn einasti maður úr stjórnarliðinu leggur einu sinni á sig að koma hingað og lýsa því hvers vegna ber að trukka þessu í gegn. Þetta er svo mikil vanvirðing við Alþingi að ég á ekki til eitt aukatekið orð. Svo skilja menn ekkert í því af hverju álitið á þinginu er orðið svona lítið þegar ekki heyrast einu sinni sjónarmið þeirra (Forseti hringir.) sem eru að berjast fyrir málunum hér.