145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:09]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér þykir súrt að láta næsta þingmann sem hér á að tala tala inn í kvöldið þrátt fyrir þær beiðnir sem fram hafa komið. Ég verð að taka undir með hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur þegar hún spyr hvers vegna hér tali ekki þingmenn sem undirrita álitið. Af hverju koma þeir ekki fram?

Hér situr hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson. Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir var í salnum áðan. Hvað er það sem sannfærir þetta fólk svo um að þetta sé hið eina rétta þrátt fyrir þær athugasemdir sem fram hafa komið? Hefur ekki vaknað upp efi? Mér finnst okkur bera skylda til að standa vörð um það að vond mál fari ekki í gegnum þingið. Eins og málið lítur út núna er það ekki gott og það er í andstöðu við það sem Ríkisendurskoðun og fleiri hafa bent á. Ekki neitt hefur komið fram við umfjöllun (Forseti hringir.) þessa máls sem styður að þetta sé gert.