145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:19]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Enn á ný er lögð áhersla á að þetta mál er þess eðlis að það kemur beint frá ráðherranum. Það er ráðherrann sem leggur það til, það er ráðherrann sem færir verkefni inn í ráðuneytið til að hann geti haft, að því er virðist, puttana meira í þessum efnum en verið hefur hingað til. Áhöld eru um hvort ekki sé beinlínis verið að færa fé sem Alþingi hefur úthlutað til Þróunarsamvinnustofnunar, eftir einhverri bakleið inn í utanríkisráðuneytið þannig að hægt verði að nota það fé til annarra hluta. Og hér er ráðherrann ekki til að svara þessum — ja, þetta eru nánast ásakanir, þetta er alla vega mjög hörð gagnrýni á störf ráðherrans. (Forseti hringir.) Mér finnst óviðunandi að halda hér áfram fundi án þess að ráðherrann mæti til leiks, eins og stundum er sagt, til að svara þeirri hörðu gagnrýni (Forseti hringir.) sem er uppi á störf hans í þessu máli, þó ekki í öllum málum.