145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

áhrif ferðamannastraums á grunnþjónustu sveitarfélaga.

[10:42]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki alveg það ábyrgðarsvið í ríkisstjórninni að sjá um ferðaþjónustu. Hins vegar snertir það mjög innanríkisráðuneytið að ákveðnu leyti, sér í lagi þegar reynir á innviði samgöngukerfis, löggæslumála og slíkra þátta sem snúa að innanríkisráðuneytinu. Við höfum tekið eftir því að hinn mikli straumur ferðamanna hefur valdið miklum þrýstingi á þá innviði. Síðan sér maður almennt að ferðaþjónustan hvílir misþungt eftir svæðum. Eins og hv. þingmaður segir réttilega hefur hún samt verið gleðileg viðbót fyrir efnahagslífið í landinu. Það er óhætt að segja að í kringum Hornafjörð og á öllu suðausturhorni landsins sé mikill ferðamannastraumur vegna einstakrar náttúrufegurðar þar.

Núna er vinna í gangi í því sem kallast Stjórnstöð ferðamála við að greina áhrif ferðamanna á efnahagslíf landsins í víðu samhengi. Við höfum nokkuð lengi búið við það að þær tölur sem við höfum um greinina hafa verið dálítið brotakenndar. Þá er ég að tala um hagvísa og hagtölur. Það er mikilvægt að á því sé ráðin bót þannig að við náum vel utan um það hvað þessi grein gefur inn í þjóðfélagið, hvar kreppir að og hvað við þurfum að gera betur. Þá hef ég lagt mikla áherslu á að ekki sé einvörðungu litið þröngt á greinina heldur að við lítum á alla þá hætti sem undir heyra, alla innviði, samgöngur, heilbrigðismál og löggæslu. Að sjálfsögðu er hluti af því það sem hv. þingmaður nefnir hér, yfirvofandi skortur á húsnæði víða. Ég held að brýnt sé að slík vinna fari fram. Að því er unnið og vonandi mun sú vinna gagnast okkur við að gera frekari áætlanir.