145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

styrking tekjustofna sveitarfélaga.

[10:46]
Horfa

Lárus Ástmar Hannesson (Vg):

Herra forseti. Ég tek svolítið boltann frá síðustu ræðu. Nú stöndum við frammi fyrir því og vitum að staða ríkissjóðs hefur batnað verulega, sem er að sjálfsögðu jákvætt, þrátt fyrir vanreiknaðar arðgreiðslur frá fjármálafyrirtækjum. Á meðan býr stór hluti sveitarfélaganna við mjög erfiðan rekstur. Rekstur sveitarfélaganna versnaði á síðasta ári, A-hlutinn sérstaklega, og mörg sveitarfélög halda sér uppi á því að ná peningum úr B-hlutanum.

Það er nýbúið að gera kjarasamninga og við vitum öll að hlutur launa í rekstri sveitarfélaga er mun hærri en sambærilegur hlutur í rekstri ríkisins þannig að launahækkanir, sem eru að sjálfsögðu góðar, bitna meira á vösum sveitarfélaganna en ríkisins.

Sveitarfélög og ríki er bara hvor sinn vasinn á sömu buxunum og þannig þurfum við að hugsa þetta og nálgast þetta. Við erum öll að gera okkar besta úti á landi í að veita þjónustu. Rekstur lítilla hjúkrunarheimila er til dæmis mjög erfiður en við höfum þann rétt að fá að hafa gamla fólkið okkar heima og þjónusta það í sinni heimabyggð. Við viljum gera það áfram.

Það var komið inn á ferðaþjónustuna og tekjur af henni. Það mál þarf að skoða. Þess vegna vil ég beina nokkrum spurningum til hæstv. fjármálaráðherra: Hver er afstaða hæstv. fjármálaráðherra til áskorana sveitarfélaganna um að styrkja tekjustofna þeirra? Eru viðræður hafnar milli ríkis og sveitarfélaga um breytingar (Forseti hringir.) á skiptingu tekna?