145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

styrking tekjustofna sveitarfélaga.

[10:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Hér er spurt um mjög mikilvægt mál og ég er sammála því sjónarmiði sem hér er talað fyrir, að við eigum að horfa á þetta sem þjónustu við íbúana í landinu, það sem gert er á vegum ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar. Að því leytinu til er sjálfsagt að menn velti fyrir sér frá einum tíma til annars hvernig eigi að skipta þeim tekjum sem verða af sköttum og gjöldum.

Varðandi stöðu sveitarfélaganna almennt er áhyggjuefni að heildarniðurstaða A-hlutans er neikvæð. Hún er um það bil í heildina neikvæð um álíka fjárhæðir og rekstur ríkissjóðs er jákvæður. Þetta er visst áhyggjuefni, sérstaklega þegar við horfum til þess hvar við erum stödd í hagsveiflunni. Hér hefur verið hagvöxtur ár eftir ár og heildarniðurstaðan hjá hinu opinbera er samkvæmt þessu nánast engin, þ.e. afgangurinn, og það er áhyggjuefni.

Þegar við skoðum hins vegar einstök sveitarfélög sjáum við gríðarlega fjölbreytni í rekstrarafkomunni. Það fer mjög eftir stærð sveitarfélaganna en það er þó ekki endanlegur mælikvarði vegna þess að það eru líka til smá sveitarfélög sem skila miklum afgangi, eru með mjög háar tekjur á hvern íbúa. Það er kannski helst einkennandi fyrir þau sveitarfélög sem eru í mestum vandræðum að þau eru tiltölulega fámenn.

Við eigum samtal við Samband íslenskra sveitarfélaga um þessa stöðu og fundur verður haldinn í mínu ráðuneyti í dag þar sem þessi mál eru á dagskrá. Það er ekki hægt að segja að við höfum fallist á að breyta tekjuskiptingunni en við ætlum svo sannarlega að setjast niður með sveitarfélögunum og greina þennan vanda, reyna að gera okkur betur grein fyrir því hvar rót vandans liggur, og að sjálfsögðu (Forseti hringir.) munum við hlusta eftir þeim sjónarmiðum sem sveitarfélögin hafa fram að færa. Mér finnst vera einkennandi hvað staðan er misjöfn í þessari flóru sveitarfélaga.