145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

fjárveiting til löggæslu.

[10:53]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ein af grunnskyldum ríkisins er að tryggja innra og ytra öryggi borgaranna og því skiptir verulega miklu máli að hin virðulega samkoma sem hefur fjárveitingavaldið láti það endurspeglast þegar fjárlög eru ákveðin á hverju ári að staðið skuli við þessa grunnskyldu.

Við erum ein af fáum þjóðum heims sem búa þannig að borgaralegar stofnanir sinna fyrst og fremst innra og ytra öryggi. Ytra öryggi er á borgaralegum forsendum með alþjóðlegu samstarfi annars vegar í Atlantshafsbandalaginu og hins vegar með varnarsamningi við Bandaríkin, en innra öryggi er fyrst og fremst lögregla og síðan Landhelgisgæsla.

Á undan förnum árum hefur löggæslan látið mjög á sjá. Það er kominn tími til að við stöndum sameiginlega að endurreisn lögreglunnar. Í Morgunblaðinu í dag kemur fram hjá Jóni Bjartmarz að það vanti verulega fjármuni, vanti búnað og að fjölga þurfi lögreglumönnum.

Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. innanríkisráðherra hvort hún hafi ekki ástæðu til að ætla að fjárlaganefnd og fjárveitingavaldið muni koma til móts við þær óskir að löggæsla verði styrkt verulega á næsta ári og á komandi árum, fjárfest verði í öllum búnaði fyrir lögregluna og veruleg fjölgun lögreglumanna verði þegar á næsta ári og komandi árum.