145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

25 ára reglan í bóknámi.

[11:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Með breyttri menntastefnu sem samþykkt var í fjárlögum fyrir árið 2015 voru fjöldatakmarkanir settar á bóknámsnemendur í framhaldsskólum sem náð hafa 25 ára aldri. Þeim nemendum hefur fækkað um 447 á milli ára, þ.e. rétt um 40%. Skólarnir vísuðu ekki frá nemendum sem voru í námi 2014 en nýjum umsóknum var flestum hafnað. Reyndar bárust þær ekki margar því að skilaboðin voru skýr: Nemendur voru ekki velkomnir í framhaldsskólana heldur vísað á einkaskóla sem reka frumgreinadeildir, á Bifröst, Háskólann í Reykjavík og Keili á Suðurnesjum. Kostnaður nemenda margfaldast. Ríkið greiðir sambærilega upphæð fyrir nemendur í fullu námi í einkaskólunum og bóknámsnemendur í framhaldsskólunum eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar um málið frá árinu 2012 og nýlegri eftirfylgniskýrslu. Nemendur þurfa að hafa lokið um 140 framhaldsskólaeiningum eða sambærilegu námi af þeim 200 einingum sem er minnst krafist til stúdentsprófs þegar þeir hefja námið.

Símenntunarstöðvar bjóða upp á undirbúningsnám og fyrir það greiða nemendur á annað hundrað þúsund krónur en námsgjöld í framhaldsskólunum eru um 17 þús. kr. á önn. Símenntunarstöðvar fá einnig framlag frá ríkissjóði. Með fjöldatakmörkununum er ríkið í raun að styrkja þrefalt skólakerfi vegna bóknáms í framhaldsskólum, símenntunarstöðvar, frumgreinadeildir við háskóla og opinberu framhaldsskólana.

Ég spyr því hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort hann telji að skólastefnan muni skila ríkissjóði ávinningi til lengri og skemmri tíma og hvort hann telji að um sé að ræða árangursríka hagstjórn og byggðastefnu í anda sjálfstæðismanna.