145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[11:17]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég sagði það í gær og mér finnst ástæða til þess að segja það aftur að við náðum ágætismálamiðlun og góðri niðurstöðu í náttúruverndarmálum. Hér er mjög umdeilt mál á ferð. Mér finnst ástæða til þess að láta á það reyna hvort hægt sé að ná einhverri niðurstöðu í málið í stað þess að hafa það hér í svo mikilli óeiningu. Þetta er töluvert stórt og mikið mál og skiptir miklu fleiri máli en okkur þingmenn 63. Það er vert að hafa í huga að það snýr minnst að okkur sem hér erum, það snýr að fólki úti í heimi sem þarf að þiggja aðstoð. Mér finnst mjög mikilvægt að ráðherra sýni frumkvæði og þann manndóm að hann sé tilbúinn til þess að setjast niður og sjá hvort hægt sé að finna farsæla lausn. Ef hann er ekki hér til að ræða við okkur og svara þeim spurningum sem fram hafa komið, nýjum spurningum eftir flutningsræðu hans um málið, þá held ég að við ættum að fresta umræðunni.